Fjallaferðin 2017 - ferðasaga

Miðvikudaginn 3. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af þrjár ferðum félagsins á næsta ári, m.a. innanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr innanlandsferðinni sem farin var sl. sumar. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári.

Fjallaferð Einingar-Iðju dagana 14. – 16. ágúst 2017

Kverkjöll-Askja-Herðubreiðarlindir-Holuhraun 

Akureyri skartaði sínu fegursta með stafalogni og sólskini síðsumarmorguninn 14. ágúst þegar lagt var stað í Fjallaferð Einingar-Iðju. Pollurinn spegilsléttur og speglaði alla fegurð umhverfisins. Valgerður beið eftir að 26 manns fengju sér sæti. Farastjóri var Björn formaður Snæbjörnsson, Óskar Þ. Halldórsson leiðsögumaður og Sveinn Sigurbjarnarson bílstjóri. Enginn lét bíða eftir sér og lagt var af stað stundvíslega kl. 8:30. 

Fyrsta stopp var í Kjarnafæði á Svalbarðseyri þar sem tekið var kjöt fyrir grillveislu ferðarinnar. Þaðan lá leiðin í Mývatnssveit og fengu ferðalangar að rétta úr sér og kíkka á WC þar sem löng ferð var framundan og langt í næsta pissustopp. 

Úr Mývatnssveit var keyrt sem leið lá rakleitt í Möðrudal. Í dásemdar veðri í Fjallakaffi fengum við okkur bita undir berum himni og fengum geit í matnn - ekki í matinn, heldur í mat. Sú var heldur áhugasöm og leist vel á nestisbúnaðinn okkar og gerði sér lítið fyrir og tróð sér ofaní töskur til að ná sér í bita. Geitin endaði inn í rútu með okkur og gerði sig líklega að renna í þann sem henti henni út. Allt endaði þó vel og leiðir skildu. 

Við gerðum tilraun til að komast inn í Möðrudalskirkju, sem er lítil falleg kirkja á staðnum, en hún var því miður læst vegna ágangs ferðamanna. Veðurguðirnir léku við okkur og alltaf blasti Herðubreiðin, drottning allra fjalla, við í sólinni í allri sinni dýrð. 

Um miðjan dag var komið í Hvannalindir og sveif andi Fjalla-Eyvindar og Höllu þar yfir. Talið er að þau hafi dvalist þar í kringum árið 1767 og enn má sjá rústir af dvalarstað þeirra. Vel valin staður til að fara huldu höfði, á milli tveggja jökuláa - Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Hér var gengið um og dáðst að þessari litlu vin í eyðimörkinni. 

Liggur við Kreppu lítil rúst,

leiðirnar ekki greiðar,

Kyrja þar dimman kvæðasón

Kverkjalla vættir reiðar,

fríð var í draumum fjallaþjófs

farsældin norðan heiðar,

þegar hann sá eitt samfellt hjarn

sunnan til Herðubreiðar

Höf. Jón Helgason 

Þarna var kominn súldarúði og ferðinni heitið í Kverkfjöll. Um kl. 18 komum við í Sigurðarskála, sem er í eigu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Ferðafélags Húsavíkur, þar komum við okkur fyrir með svefnpláss og gátum öll verið á sama lofti þótt margir gestir væru í skálanum. 

Tími gafst til að ganga um svæðið þar sem útsýnið var hreint dásamlegt til allra átta og vel sást jökulrönd Dyngjujökuls. Eftir kvöldmatinn komu flestir sér snemma í bólið enda langur dagur að baki. Allir römbuðu í réttan svefnpoka, með einni undantekningu þó, enda erfitt að finna réttan svefnstað í svartamyrkri. Það leystist úr því og engir hjónaskilnaðir urðu. 

15. ágúst

Áfram voru veðurguðirnir okkur í hag og ekki ský á himni. Lögðum af stað frá Sigurðarskála um kl. 9 og ekið var í 10 mínútur í átt að íshelli sem er í kverkinni á Kverkjökli. Ekki var leyfilegt að fara of nálægt hellinum vegna hættu á hruni. Frá íshellinum lá leiðin í Drekagil þar sem snæddur var hádegisverður og eftir það var haldið í átt að Öskju. Þaðan gengum við 2,5 kílómetra hvora leið að Öskjuvatni og Víti þar sem einhverjir drifu sig í bað og aðrir dáðust að sköpunarverkinu. Landslagið þarna er talið hvað líkast því sem er á tunglinu. 

Eftir gönguna var ekið að Holuhrauni þar sem gengið var um í jaðrinum, en mjög erfitt er að fóta sig á úfnu hrauninu. Engin orð fá því líst hversu ógnvænleg móðir náttúra getur verið og hreint frábært að sjá hvernig nýja hraunið mætir því gamla í listaverki náttúrunnar. 

Í bakaleiðinni lögðum við smá lykkju á leið okkar og komum að fossinum Skínanda í Svartá, en það var í kringum 1,7 kílómeters ganga frá bílaplani að fossinum. Yndislega fallegt var á staðnum og andstæður náttúrunnar ótrúlegar, eyðimörk svartra sanda og grænn gróður á milli. 

Hér voru göngur dagsins farnar að segja til sín og leiðinni var haldið áfram í Dreka fjallaskála ferðafélags Akureyrar sem var næsti náttstaður hópsins. Slegið var upp grillveislu þar sem mannskapnum var boðið upp á dýrindis lamb og meððí eftir dásamlegan dag. Þetta kvöld var ekkert víxlað á svefnplássum. 

16. ágúst

Farið á fætur við fyrsta hanagal og borðaður morgunmatur. Þeir sem vildu gengu upp Drekagilið, en í enda gilsins er mjög fallegur foss sem enginn þekkti nafn á þannig að honum var gefið nafn í snarhasti. Drekafoss skildi hann heita. 

Löng keyrsla var að næsta áfangastað, Herðubreiðalindum, og veður orðið þungbúið og úrkoma í grend. Þegar þangað kom var gengið um svæðið og kofi Fjalla-Eyvindar skoðaður, en þar er talið að hann hafi haldið til að minnsta kosti einn vetur. Merkilegur bústaður það með rennandi vatni í gólfinu. Í skála Ferðafélags Akureyrar fengum við að fara inn og snæddum þar hádegisverð þar sem nú var orðið blautt og kalt. Á leið niður að þjóðvegi 1 keyrðum við fram á erlenda ferðamenn með sprungið dekk. Það var sem við manninn mælt að hálf rútan þusti út til hjálpar enda óskemmtlegar aðstæður og ekkert símasamband upp á miðjum öræfum til að kalla eftir hjálp. Þó nokkurt bras var að skipta um dekk vegna þess hve undirlagið gaf mikið eftir og þurfti því að moka og moka en íslenskt fjallafólk kunni á því lagið. 

Um þrjú leytið var svo komið í Hrossaborgir, stutt stopp þar, veðrið orðið frekar leiðinlegt og engin ummerki sáust eftir Tom Cruise. Hann var þarna fyrir nokkrum árum við tökur á myndinni Oblivion, en þetta landslag átti að sýna umhverfið eftir að jörðin legðist í eyði. Hér voru allir dregnir út úr rútunni í fyrstu og einu hópmyndatöku ferðarinnar sem var nú ekki seinna vænna þar sem ferðalok nálguðust. 

Nú var bara smá spotti upp á þjóðveg en bílstjórinn okkar var alveg ótrúlegur og munaði ekkert um að fara aðeins austur eftir þjóðveginum til þess að leyfa okkur að skoða kofa Fjalla-Bensa sem stendur á vestur bakka Jökulsár á Fjöllum. Þarna hafðist Bensi við á ferðum sínum í eftirleitum sem margar sögur fara af. 

Eftir innlit í draugakofa Fjalla-Bensa var aðeins komið við í gangnamannakofanum Péturskirkju sem enn er notaður til að hýsa fé, hesta og gangnamenn í haustsmölun. 

Síðasta stopp ferðarinnar var í Mývatnssveit þar sem fólk gat fengið sér molasopa og annað góðgæti fyrir lokasprettinn. Hjá Krossi fékk Valgerður hiksta en Sveinn kann á sína og um kvöldmatarleytið skiluðu þau öllum heilum á húfi heim í hlað eftir þessa ógleymanlegu fjallaferð Einingar-Iðju. 

Takk fyrir okkur.

Anna María Gunnarsdóttir og Helga Ingólfsdóttir