Á fréttavefnum visir.is er í dag fjallað um ræðu sem Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjararáðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, hélt fyrir nokkru síðan þar sem hún var að ræða um kröfugerðir stéttarfélaganna. M.a. sagði hún þetta:
„Algengast er að kröfugerðirnar hafi það yfirbragð að hattur hafi verið látinn ganga á fundi, allir láti óskir sínar í hann, einhver hafi síðan tekið að sér að skrifa þær tilviljunarkennt á blað og komið á framfæri án frekari rýni af neinu tagi. „All you can eat buffet“ eru orð sem koma upp í hugann í þessu samhengi,“ segir Inga Rún og uppsker nokkra kátínu í salnum þar sem sitja kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna.
Aðspurður um ræðuna sagði Björn Snæbjörnsson, formaður SGS og Einingar-Iðju þetta í samtali við Vísi. „Maður er bara hálfdapur að sjá þennan málflutning og hversu lítil virðing er borin fyrir starfsmönnum sveitarfélaganna, það er hæðst að kröfum þeirra og hugmyndum í tengslum við kjarasamninga og gert lítið úr félagslegum vinnubrögðum, miðað við þetta viðhorf er kannski ekkert skrýtið að lítið hefur gengið í viðræðum við sveitarfélögin í 7 mánuði.“
Hér má sjá ræðuna, a.m.k. brot úr því sem virðist vera lengri ræða.