Þann 1. mars sl. skrifaði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, undir samning um kaup á fimm nýjum íbúðum í Álalind 2 í Kópavogi. Þetta er stærsta einstaka fjárfesting sem félagið hefur farið í, en um er að ræða fjórar fjögurra herbergja íbúðir og eina þriggja herbergja íbúð. Sér bílastæði í bílakjallara fylgir hverri íbúð. Fyrirhugaður afhendingartími íbúðanna er í febrúar 2018.
Íbúðirnar eru í 5 hæða fjölbýlishúsi sem stendur við Álalind 2 í austurhluta nýs íbúðahverfis, Glaðheima, í Kópavogi. 25 íbúðir eru í fjölbýlishúsinu og er bílageymsla undir því. Íbúðahverfið liggur austan megin við Reykjanesbraut og felst sérstaða þessa íbúðarsvæðis m.a. í því hversu miðlægt það er í Kópavogi og í vaxandi svæðiskjarna höfuðborgarsvæðisins, Smáranum. Frábær staðsetning, stutt í stofnæðar höfuðborgarsvæðisins og Smáralind.
Alltaf í notkun
Stjórn félagsins ákvað nýlega að ganga frá kaupum á þessum fimm nýju íbúðum og selja fjórar eldri í þeirra stað síðar á árinu, í Ljósheimum og Sólheimum. Björn segir að íbúðirnar fyrir sunnan séu svo að segja alltaf í notkun og því komist færri í þær en vilja. „Eins og staðan er í dag erum við með átta íbúðir víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu fyrir okkar félagsmenn, þar af eru tvær þeirra sjúkraíbúðir. Sú umræða kom upp í stjórn félagsins hvort ekki væri kominn tími á að bæta við einni íbúð og eftir ítarlega skoðun þá varð þetta lendingin. Þetta er stærsta einstaka fjárfesting sem félagið hefur farið í, að minnsta kosti á meðan ég hef verið í stjórn þess. Við erum að bæta við einni íbúð, en nú erum við að fá fimm glænýjar í stað fjögurra eldri sem var farið að styttast í að þyrftu að fá smá andlitslyftingu,“ sagði Björn. Björn sagði einnig að aukið hagræði væri að hafa íbúðirnar á sama stað, t.d. varðandi eftirlit á þeim og þrif.