Ferðin til Englands - örfá sæti laus

Farið verður til Englands dagana 10. til 20. ágúst 2016 því lágmarksþátttöku er náð og fer lausum sætum óðum fækkandi. Hámark 50 manns. Síðasti dagur til að skrá sig í ferðina er 31. maí 2016. Flogið verður frá Egilsstöðum til London og þaðan aftur til Egilsstaða. Gist verður í 3 nætur í Bath, tvær nætur í Chester, 2 nætur í York og 3 nætur í London. Gist verður í tveggja manna herbergjum á hótelum.

Sigurbjörg Árnadóttir  verður leiðsögumaður, bílstjóri verður Sveinn Sigurbjarnarson og fararstjóri Björn Snæbjörnsson. 

Verð kr. 285.000 á mann. Óafturkræft staðfestingargjald er kr. 40.000. 

Dregnir verða 18 orlofspunktar frá punktaeign þeirra sem fara í ferðina.

Innifalið í verði:

  • Akstur: Allur akstur  erlendis.
  • Flug: Egilsstaðir – London - Egilsstaðir.
  • Gisting: 10 nætur í tveggja manna herbergjum á hótelum með morgunverði.
  • 8. kvöldverðir innifaldir erlendis. (Athugið! Ekki fyrsta daginn í ferðinni og frjálsa daginn í London)
  • Sigling í London.
  • Ekki innifalið í verði:
  • Ferðir innanlands og aðgangseyrir í söfn á Englandi.

ATH! Boðið verður upp á rútuferð austur á Egilsstaði 10. ágúst og heim til Akureyrar 20. ágúst. 

Ferðalýsing:

Miðvikudagur 10. ágúst 2016
Flug Egilsstaðir – London. Komum til London Gatwick kl. 17:00 þar sem stigið verður upp í rútu og keyrt til Bath (223 km). Stoppað verður við Stonehenge og steinhringirnir þar skoðaðir. Kvöldverður verður snæddur á leiðinni, en hann er ekki innifalinn. Bath er afar töfrandi bær og af mörgum talinn sá fegursti á Englandi með öllum sínum fögru görðum og göngustígum. Þar gætir sterkra ítalskra áhrifa. Rómverjar dvöldu lengi í borginni og skildu eftir sig merkar fornminjar og hugmyndir þeirra um borgarskipulag má sjá í Bath. Torgin í borginni eru sérstaklega falleg og minna mjög á ítalskar miðaldarborgir. Rómversku böðin í miðborginni eru stórkostleg.

Fimmtudagur 11. ágúst 2016
Farið verður í morgunferð um bæinn Bath og ýmislegt skoðað. Seinni partinn er frjáls tími til að skoða t.d. tehús og böð. Kvöldverður og gist í Bath.

Föstudagur 12. ágúst 2016
Farin verður skoðunarferð til Cardiff. Að henni lokinni verður farið í stutta gönguferð. Farið verður í velskan kvöldverð þar sem boðið verður upp á velska tónlist og afþreyingu. Gist í Bath. 

Laugardagur 13. ágúst 2016
Ekið frá Bath til Chester (275 km) Á leiðinni verður ekið um fallegt landssvæði, héraðið Cotswold, sem gjarnan er litið á sem hjarta Englands sökum þess hversu vel íbúunum þar hefur tekist að varðveita gamlar byggingar og hús með sínum sérstaka byggingarstíl. Einstaklega fallegt landslag með skógivaxnar hlíðar og víðáttumikil engi þar sem stöku lækir eða ár setja svip sinn á leiðina. Stoppað verður í Cheltenham, en byggð þar er afar falleg þar sem nýklassískur byggingarstíll er afar áberandi. Komið verður til Chester seinni part dagsins. Kvöldverður á veitingastað við árbakka í Chester.

Sunnudagur 14. ágúst 2016
Þennan dag er hægt að velja um tvennt, tvo frábæra viðburði þar sem hægt er að skoða það besta sem borgin hefur upp á bjóða. Annars vegar er hægt að skoða 2000 ára sögu Chester með því að keyra um í opinni rútu, m.a. framhjá Chester kastala, miðalda byggingum og rómönskum hringleikahúsum. Á eftir verður farið í stutta siglingu á ánni Dee. Hins vegar er hægt að skoða dýragarð í Chester með meira en 7.000 dýrum og 400 mismunandi tegundum. Kvöldverður og gist í Chester.

Mánudagur 15. ágúst 2016
Ekið frá Chester til York (175 km). Á leiðinni verður stoppað í Liverpool til að skoða nýuppgerð hafnarsvæði og auðvitað að heimsækja Bítlasafnið. Áfram verður haldið og ekið meðfram Pennine Way og í gegnum fallegan þjóðgarð sem heitir Peak District. Komið verður til York seinni partinn. Kvöldverður og gisting í York.

Þriðjudagur 16. ágúst 2016
Um morguninn verður farið í skoðunarferð um York. T.d. verður farið að hinu heimsfræga Jorvik Viking Center. Einnig verður farið að einni fegurstu dómkirkju í heimi, York Minster, sem er hreint meistaraverk úr lituðu gleri og steini með rætur í elstu sögu þjóðarinnar. Kvöldverður og gist í York.

Miðvikudagur 17. ágúst 2016
Ekið frá York til London (350 km.), skoðunarstopp í Cambridge, sem er einn af frægustu háskólabæjum Bretlands. Hér er hægt að fara í gönguferð með leiðsögumanni og sjá merkilegar háskólabyggingar. Komið verður til London síðla kvölds.

Fimmtudagur 18. ágúst 2016
Ein af bestu leiðum til að skoða London er að sigla á ánni Thames. Slík skoðunarferð mun leiða þig í gegnum 2.000 ára sögu með því að sjá frægustu staði borgarinnar. Allt frá þinghúsinu (Houses of Parliament) til Tower of London, áfram til kastalans Royal Palace í Greenwich. Þarna getur þú siglt áhyggjulaust í gegnum London og notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða á meðan leiðsögumaðurinn er að segja frá öllu í kring. Kvöldverður og gist í London. 

Föstudagur 19. ágúst 2016
Frjáls dagur til að skoða London í allri sinni dýrð. Gist verður í London. Ath! kvöldverður er ekki í boði þetta kvöld.

Laugardagur 20. ágúst 2016
Frjáls tími um morguninn áður en farið verður út á Gatwickflugvöll, en flogið verður seinnipartinn aftur til Íslands.

Allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráning í ferð er á skrifstofu félagsins á Akureyri, Skipagötu 14, sími 460 3600.