Ferðaþjónustubæklingurinn á ensku og pólsku

Fyrr á árinu útbjó Eining-Iðja bækling með ýmsum upplýsingum fyrir þá sem vinna á veitingastað, hóteli, gistiheimili eða í afþreyingarferðaþjónustu. Í honum er m.a. fjallað um lágmarkshvíld, jafnaðarkaup, vaktavinnu, að reynslutími eða starfsþjálfun er líka vinna og margt fleira. Nú hefur félagið látið þýða bæklinginn á ensku og pólsku og má nálgast bæklinginn á þessum þremur tungumálum hjá félaginu og hjá Alþjóðastofu. 

Þegar bæklingurinn kom út á íslensku fyrr á árinu sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að ástæðan fyrir að þessi störf væri sérstaklega tekin fyrir sú að fjölmörg mál hafi komið á borð félagsins að undanförnu frá félagsmönnum sem starfa í þessum geira. „Mjög mörg þessara mála snúast um jafnaðarkaup, að vaktir séu ekki rétt settar upp, þ.e. að ekki sé skráð upphaf eða endir á þær. Þá höfum við líka fengið til okkar mál sem snúast um að félagsmenn hafi verið fengnir til reynslu eða í starfsþjálfun en ekki fengið greitt fyrir þá daga sem þeir voru í starfi,“ sagði Björn. Því miður er enn víða pottur brotinn í þessum málum og eftir margar fyrirspurnir um hvort ekki ætti að þýða bæklinginn á önnur tungumál hefur nú verið bætt úr því.