Þriðjudaginn 3. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af þremur ferðum félagsins á næsta ári, m.a. utanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr ferð sem farin var til Englands fyrr á árinu. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári.
Dagana 10. til 20. ágúst sl. ferðaðist fjölmennur hópur Einingar-Iðjufélaga til Englands. Sigurlaug Tobíasdóttir og Páll Þorkelsson tóku að sér að rita ferðasögu og má lesa hana á næstu síðum.
Miðvikudagurinn 10. ágúst
Þennan dag lagði af stað góður hópur frá Einingu – Iðju til Egilsstaða og var ferðinni heitið til London þar sem ætlunin var að dvelja í Englandi næstu ellefu dagana. Á Englandi átti að skoða hinar ýmsu borgir og aðra markverða staði. Ferðin austur gekk mjög vel og var nýbreytni að fara frá Egilsstöðum og þaðan flogið var til Gatwik. Þar tók á móti okkur Sigurbjörg leiðsögumaður og Sveinn bílstjóri, en nú var breyting frá því sem áður var, Svenni var komin með bílstjóra sem átti að aka okkur þessa daga. Við vorum með hirðskáldið hann Davíð og hann orti:
Svenni starfið syrgja má
sýnilega sleginn
bílstjóranum bendir á
brú og staur við veginn.
Þegar að allir voru búnir að ná í allt sitt hafurtask var lagt af stað og ókum við sem leið lá að hóteli sem var í útjarðri Bath. Þetta var gamalt herragarðssetur sem búið var að endurnýja og gistu menn ýmist á gamla setrinu eða í hýsi tengt því sem kallað var fjósið. Þetta var fallegt hótel í fögru umhverfi og sagt var að Elísabet drottning, fædd 1588, hafi komið þarna við en ekki gist. Þarna gengur við til náða eftir góðan dag.
Fimmtudagurinn 11. ágúst
Þennan dag var lagt af stað klukkan tíu eftir góðan morgunmat og átti einn ferðafélaginn afmæli, hún Hulda, og sungum við fyrir hana afmælissöngin við góðar undirtektir. Við héldum nú sem leið lá niður Avondalinn til borgarinnar Bath sem stendur við bakka árinnar Avon. Þetta er gömul borg og er á náttúrminjaskrá Unesco. Í Bath búa um 100 þúsund manns og mikið er um gamlar byggingar. Þar ber helst að nefna rómversku böðin sem sumir fóru að skoða en aðrir fóru í borgarstrætó um gamla bæinn. Byggingarnar voru allar í sama stíl og strætin voru blómum skrídd, veðrið var yndislegt og undu menn sér þarna til um klukkan fjögur, þá var lagt af stað heim á hótel. Um kvöldið var borðuð dýrindis þriggja rétta máltíð og skálað í hvítvíni í boði afmælisbarnsins og hennar manns, Gesti.
Föstudagurinn 12. ágúst
Þennan dag var haldið til Cardiff. Það var ekið um fjalllendi Wales og þar er mikið um skóga og engi. Wales er kallað „land kastalanna” og eru þar um 400 kastalar. Við ókum sem leið lá niður að strönd Cardiff sem búið er að byggja upp frá grunni og má þar finna stjórnsýlsuna, óperuna og háskólann. Þar er fallegt bátasvæði og göngustígar meðfram sjónum sem eru skreyttir blómakerjum. Við voru í sól og blíðu þarna ásamt því að hægt var að skoða margt fallegt. Þegar búið var að ganga ströndina og skoða hana þá lá leið upp í miðbæ Cardiff. Hann var skoðaður með öllu sem því fylgir, skemmtilegu mannlífi og verslunum. Komið var heim á hótel um fimm leytið. Um kvöldið var borðað dýrindis lambakjöt og meðlæti og eftir það gátu menn sest út á verönd og spjallað undir stjörnubjörtum himni og rætt um lífið og tilveruna.
Laugardagurinn 13. ágúst
Þennan dag kveðjum við Bath og ökum sem leið liggur norður eftir Wales til Chester. Við ókum um sveitahéröð sem oft eru kölluð „hjarta Evrópu” þar sem mikið er um græn engi og skóga inn á milli. Gert var klukkutíma stopp í Cheltenham og hann skoðaður með sínar nýju og gömlu bygginga. Fólk settist niður, skoðaði mannlífið og fékk sér kaffibolla. Eftir það var haldið áfram um falleg héröð Wales og að bæ sem heitir Burton of the Water sem er innan þjóðgarðs Wales. Þetta var geysilega fallegur bær og lék veðrið við okkur, sól og blíða. Í bænum mátti sjá á sem rann eftir honum miðjum, fjölskyldur að leik og fullt af veitingahúsum. Þar mátti finna vísi af safni með alls konar farartækjum sem gaman var að skoða. Eftir dágott stopp var ekið af stað norður eftir og upplýsti Sigurbjörg farastjóri okkur um þær borgir og þá bæi sem við ókum fram hjá, það var mjög fróðlegt. Eftir frásögn Sigurbjargar orti Davíð:
„Fín er Sibba að fræða og tala
um fjölda mála á alla skala
en hér er takki” sagði Svenni
„svo þú getið slökkt á henni”
Við komum til Chester um klukkan fimm á hótel sem heitir Mercure. Þetta var stórt og mikið hótel með alls konar þægindum svo sem sundlaug, líkamsrækt og snyrtistofum. Við borðuðum öll saman um kvöldið og áttum ánægjulega kvöldstund.
Sunnudagur 14. ágúst
Þennan dag lá leið okkar niður í miðborg Chester, sem er borg við bakka árinna Dee. Þar gengur við upp á borgarmúrinn sem er um þriggja kílómetra langur. Þessi borg hefur þá sérstöðu að helstu miðalda byggingarnar eru frá tímum Rómverja, allt að 2000 ára gamlar. Þær eru mjög vel varðveittar. Við gengum múrinn og virtur fyrir okkur þessar flottu byggingar og eftir gönguna var farið í siglingu á ánni Dee og byggingarnar skoðaðar frá því sjónarhorni. Þessi borg lenti ekki í stríðinu og hafa byggingarnar því haldið sér frá upphafi og liggja fjórar aðalgötur bæjarins eins og á tímum Rómverja. Þessum degi eyddu við með því að vera í þessari borg og virða fyrir okkur sögulegar minjar. Við fórum heim seinnipartinn og borðuðum dýrindis máltíð eins og alltaf.
Mánudagurin 15. ágúst
Nú var haldið frá Chester og ekið norður eftir til Liverpool. Áður en lagt var af stað var sunginn afmælissöngur fyrir afmælisbarn dagsins, hana Maríu. Svo var ekið í sól og blíðu og þegar til Liverpool var komið stoppuðum við hjá vöruskemmunum. Þær hafa verið byggðar upp og endurgerðar eftir stríðið ásamt konungskastalanum sem er síðan 1235. Liverpool varð fyrir gríðarlegum loftárásum í seinna stríði. Nú er búið að endubyggja höfnina með vöruskemmunum og er hún komin á heimsminjaskrá Unesco. Allar byggingarnar eru úr þessum rauða steini og er ótrúlegt að sjá hvað allt er orðið glæsilegt eftir árásir Þjóðverja því af myndum að dæma þá var þarna allt í rúst.
Bítlasafnið er staðsett í Liverpool og skoðuðum við það og var mjög gaman að rifja upp þennan tíma og heyra gömlu bítlalögin spiluð. Eftir skoðunarferðina þá enduðum við á því að fara í minjagripabúðina. Þarna var lítið tívolí sem sumir fóru í en aðrir gengur um í blíðunni. Það er ekki einungis búið að byggja upp hafnarsvæðið heldur líka miðbæjarkjarnann sem er mjög glæsilegur en hann skoðuðum við ekki. Nú var haldið áfram eftir hraðbraut N62, þar fórum við að sjá skóga, fjöll og dali enda vorum við að nálgast þjóðgarð við enda Pýrenafjallanna. Þarna fór maginn að segja til sín og var stoppað í ensku fallegu sveitaþorpi sem heitir Holinfirth. Þar snæddum við góðan mat og stoppuðum í einn og hálfan tíma í góðu veðri. Eftir það var haldið af stað og ekið sem leið lá til York að hóteli sem heitir Indigo. Við komum okkur fyrir á hótelinu og snæddum kvöldverð. Eftir það fóru sumir í kvöldgöngu, því veðrið var yndislegt, en aðrir sátu og spjölluðu.
Þriðjudagurinn 16. ágúst
Um kl. tíu, þegar allir voru búnir að borða morgunmat, var lagt af stað í göngu niður í miðbæ York. Allar byggingarna rþarna eru fallegar, gamlar og vel við haldið. Við gengum að Dómkirkjunni, þeirri næststærstu í Evrópu. Hún var skoðuð og hægt var að ganga upp um hundrað tröppur og blasti við manni mjög fallegt útsýni. Á kirkjunni eru sjö stórir og tilkomumiklir gluggar sem eru kallaðir „systurnar sjö”. Þessi kirkja er gífulega stór og falleg og mikið mannlíf í kringum hana. Þar gat að líta skóladreng sem var að safna sér pening fyrir náminu og blés hann stærstu sápukúlu sem við höfum séð. Einnig var þar að sjá hina ýmsu sölubása af öllum stærðum og gerðum. Þessi borg er með borgarvirki byggt af Rómverjum og gengum við að rústum Cliffordkastala en þar stóðu eftir tröppur sem voru hluti af kastalanum. Þarna var líka að finna víkingasafn og fóru sumir og skoðuðu það.
Eftir þetta var gefinn frjáls tími og hægt var að fara í siglingu, bæjarstrætó eða ganga eftir múrnum. Í miðbænum var stór markaður og lék verðið við okkur eins og alltaf og allir nutu sín í botn. Um kvöldið hélt hópurinn á veitingahús nálægt hótelinu en þar þurftu menn að ganga upp á hanabjálka. Þetta hús hafið áður hýst gistihús og veiðafæraverslun og var sögð saga af því að þarna gengi maður aftur og blési í hálsmál fólks. Svenni hafði orð á því að í fyrri ferð hans hafi hann fundið fyrir þessu blæstri. Við vorum þarna fram eftir kvöldi en York er ein af skemmtilegustu borgunum sem við komum til. Eftir máltíðina var haldið heim á hótel að hvíla sig því við áttum langa leið fyrir höndum daginn eftir.
Miðvikudagurinn 17. ágúst
Nú var York kvödd og haldið suður á bóginn og var löng keyrsla framundan. Bjössi les fyrir okkur sögur og brandara til að stytta okkur stundir, hann hvetur ferðafélagana til þess saman sem og þeir gerðu. Við ókum sem leið lá fram hjá Grimsby og Hull sem allir könnuðust við frá því í þorskastríðinu. Sigurbjörg sagði okkur frá eyðileggingunni og uppbyggingunni eftir stríðið. Hún sagði okkur einnig sögur um England að fornu og nýju. Einnig ókum við framhjá Lester en þar sagði hún hæsta hlutafall útlendinga búa og þar hefði verið fundin gröf Ríkharðs þriðja.
Nú vorum við komin til Stradford en það er bær sem lifir af forni frægð Shakespear og í bænum er hús þar sem hann fæddist í og bjó. Við stoppuð í Stradford í tvo tíma í miklum hita og sól og hefur bærinn mikla sögum ásamt því að vera vinsæll ferðamannabær, en hann er örlítið stærri en Akureyri. Eftir stoppið var haldið af stað til London, en hún er milljóna borg og hefur verið byggð í meira en 2000 ár. Í London er mikið fjölmenningarsamfélag og sagið Sigurbjörg okkur hvað væri í vændum. Hún sagði okkur frá öllu stóru byggingunum sem borgin skartar og þá orti Davíð:
Að aka bíl er eins manns starf;
ekki handa tveim.
Svenni stýrissætið þarf.
Símon! Farðu heim!
Þegar við fórum að nálgast borgina fór bílstjórinn, hann Símon, að ókyrrast og sagðist vera að nálgast fokking stærsta bílastæðið í Londin, slík var umferðin. Hótelið okkar var í Wimbeldon hverfinu og heitir Holliday Inn. Um kvöldið var einhver misskilningur með matinn en því var reddað með því að borðað var á veitingastað í nágrenninu og borðað var í tveimur hollum, léttan og góðan mat.
Fimmtudagurinn 18. ágúst
Þennan dag var London skoðuð. Eftir morgunmat hélt Bjössi fund og sagði að „nú yrðu allir að halda sér saman“ en hann átti við að allir yrðu að halda hópinn og fylgjast með hvert öðru. Nú var Sigurbjörg búin að fá sér aðstoðakonu, hana Ösp, sem leyddi okkur í gegnum daginn. Byrjað var á því að fara í neðanjarðarlest og voru allir búnir að fá kort sem gilti í þrjá sólahringa. Hópnum var skipt upp í tvennt og haldið var í miðborg London. Farið var upp hjá Tower of London við Times ána og þar gengum við um borð í borgarbát sem átti að sigla um ána. Þegar við komum um borð byrjuðum við á því að borða þriggja rétta máltíð og borgin skoðuð frá Times ánni. Fólk gat farið upp á dekk og tekið myndir. Bátsferðin tók tvo tíma og síðan var haldið sem leið lá gangandi í gegnum stræti borgarinnar. Við byrjuðum á því að skoða byggingar hermálaráðuneytisins, næst skoðuðum við húsið sem Churchill starfaði í og þar næst héldum við að Downey stræti 10 en sáum ekki forsætisráðherran í þetta sinn.
Borgin iðar af sögu og lífi og sáum við byggingar þar sem öryggisgæsla drottningarinnar er ásamt því að fara í gönguferð í gegnum St. James garðinn og þar stoppuðum við í kaffibolla. Eftir þetta var gengið til hallar drottningar og torgið þar fyrir framan skoðað en þar er stytta af Viktoríu. Á hverju horni má upplifa sögu borgarinnar. Við gegnum vítt og breytt um borgina og skoðuð meðal annar Westmister Abbey, þinghúsið og fleira en við enduðum á Trafalgartorgi og sagði fólk að við værum búin að ganga 14 kílómetra. Frá torginu gengum við á ítalskan veitingastað og snæddum þar áður en haldið var af stað heim með neðanjarðarlestinni. Björn var mjög ánægður með hópinn og höfðu allir staðið sig með prýði en eftir alla þessa göngu þá orti einn ferðafélaginn, hann Ríkarður, vísu um Sigurbjörgu:
Sibba hleypur hér um grund
heldur stórstíg brokkar.
Sjálf hún líkir sér við hund
sem aftur snýr til okkar
Föstudagurinn 19. ágúst
Þessi dagur var frídagur og notaði fólk hann til þess að hvílast eða ferðast með neðanjarðarlestrinni til miðborgarinnar og versla eða kíkja á kaffihús.
Laugardagurinn 20. ágúst
Nú yfirgáfum við hótelið í London og í fyrsta skipti ringdi hraustlega. Ætlunin var að fara niður til Brighton en sökum rigningar og hvassviðris var stefnan tekin á safn samgöngutækja í útjaðri London. Á leiðinni þangað fræddi Sigurbjörg okkur um ris og fall bílaiðnaðarins á Bretlandi á árunum fyrir og eftir stríð. Safnið heitir Brookland Museum og þar mátti sjá faratæki af ýmsum gerðum, kappakstursbíla, fólksbíla, strætisvagna og meira að segja flugvélar. Undu menn sé vel og þá sérstaklega karlpeningurinn og líklegt er að þeir hafi gleymt búðarrápinu frá deginum áður þegar við komum á safnið. Eftir að hafa skoðað safnið þá héldum við út á flugvöll og bílstjórinn var kvaddur. Nú var þessi ferð á enda runnin. Skemmtileg ferð í alla staði, góðir ferðafélagar og veðrið lék við okkur mest allan tíman. Við áttum gott flug heim og nú var komið af Svenna að aka okkur heim til Akureyrar. Hópurinn kom í Skipagötu klukkan eitt um nóttina, þreytt og sæl eftir frábæra ferð til Englands.
Takk fyrir okkur!
Páll og Sigurlaug