Ferð á Vestfirði - ferðasaga

Þriðjudaginn 5. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af fjórum ferðum félagsins á næsta ári, m.a. innanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr innanlandsferðinni sem farin var sl. sumar. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári.

Ferð á Vestfirði - 10. til 13. ágúst 2015
Að morgni 10. ágúst sl. var lagt af stað í glampandi sól frá Skipagötu 14 á Akureyri í enn eina „fjallaferð“ Einingar-Iðju, nánar tiltekið til Vestfjarða. Fyrsta stopp var í Varmahlíð, þar sem leiðsögumaðurinn Kristín Sigurrós Einarsdóttir var tekin með í rútuna. Næst var stoppað í Þingeyrarkirkju og kirkjan og kirkjugarðurinn skoðaður. Þar var mjög sérstakur legsteinn, en hann var úr gleri. Þaðan var haldið í Þórdísarlund í Vatnsdal þar sem var áð og hádegisverður borðaður í góðu veðri á fallegum stað eins og oft áður.

Að loknum hádegisverði var ekið til Hvammstanga þar sem Selasetur Íslands var heimsótt. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt að skoða safnið en lyktin var voða skrítin. Síðan var haldið áfram sem leið lá og stansað á Borðeyri til að nærast smá. Það var mjög bjart og fallegt var að horfa út Strandir er við keyrðum til Borðeyrar. Í kaupfélaginu var m.a. vinnustofa en þar sáum við kjól sem var útskriftarverkefni í VMA. Gaddavírinn í kjólnum var aðeins 7,5 kg, alveg ótrúlegt stykki. Ekið var til Hólmavíkur sem leið lá út Strandir með nokkrum myndastoppum þó hvasst væri í veðri. Er til Hólmavíkur var komið var snæddur kvölverður og síðan haldið snemma til rekkju.

Dagur tvö
Logn og sól. Lagt var af stað kl. 9.30 eftir morgunverð, með smá viðkomu í kaupfélaginu þar sem sumir nestuðu sig upp fyrir daginn. Ekið var inn Steingrímsfjörð og yfir Bjarnarfjarðarháls og niður í Bjarnarfjörð sem eru mikið af grynningum og skerjum. Svo var ekið niður í Kaldbaksvík, framhjá fæðingarstað Magneu frá Kleifum, og út í Kolbeinsvík, þar sem tekið var smá sögu- og myndastopp og skoðaður reki og gamlar rústir. Því næst var ekið um Veiðileysu undir hrikalegum fjöllum og vegurinn var eiginlega hrikalegur líka. Að minnsta kosti ekki hannaður fyrir lofthrædda. Ekið var yfir Veiðileysuháls og niður í Reykjafjörð. Auðvitað var tekið smá myndastopp í brekkunni fyrir ofan Djúpavík. Þar var einnig snæddur hádegisverður. Sumir voru óheppnari en aðrir með brekku til að sitja í og snæða. Ekki orð um það meir.

Eftir hádegisverðinn var farið á minja- og handverkssafnið Kört og þrætukirkjurnar í Árneshreppi skoðaðar. Kört er fallegt safn með munum frá miðöldum til okkar tíma. Þar má einnig finna úrval af fallegu handverki og listmunum unnum af heimafólki. Skálar og skúlptúrar úr rekavið, textílverk, handprjónaðir vettlingar, sokkar og lopapeysur, skartgripir og fleira. Næst var farið yfir Meladal, reyndar var stoppað uppi á melnum til að taka nokkrar myndir en svo var ekið niður að Eyri í Ingólfsfirði og rústir gömlu síldarverksmiðjunnar skoðaðar. Á svæðinu er núna einungis sumarbyggð.

Næst lá leiðin í Trékyllisvík í Norðurfirði, sumir ætluðu að fara í búðina á staðnum en hún var lokuð vegna orlofsferðar starfsmanna. Frá Trékyllisvík var farið út í Krossnes til að líta á sundlaugina sem þar er í fjörunni. Krossneslaugin er frá árinu 1954, vatnið í laugina fæst úr Krossneslaugum sem eru þar stutt frá Skammt frá sjó er fagur hvammur en í hann streymir sjóðheitt vatn frá fyrrnefndum Krossneslaugum, svo og kaldur bunulækur. Eru skilyrði þarna því hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi.

Eftir að ferðalangar voru búin að skoða sundlaugina, án þess að blotna neitt að ráði, var ekið sem leið lá aftur til Hólmavíkur. Sumir snæddu kvölverð á hótelinu á meðan aðrir borðuðu í kaupfélaginu og enn aðrir borðuðu „heima.“ Eftir kvöldmat ákváðu nokkrir ferðafélagar að skella sér í bíó þar sem verið var að sýnina myndina Hross í oss við mislítinn fögnuð.

Dagur þrjú
Allir hressir og kátir eftir góðan nætursvefn og gerðu morgunverði góð skil. Ákveðið var að koma við í kaupfélaginu, því allir voru svo glaðir að byrja þar daginn áður. Lagt var af stað í heldur svölu veðri og spáin ekki góð. Það var heldur mikil hraðferð á logninu þennan daginn. Haldið var yfir í Djúp, yfir Steingrímsfjarðarheiði og út Langadalsströnd. Þónokkur snjór var á heiðinni um miðjan ágúst. Fyrir nokkrum árum fór vegurinn í sundur á heiðinni og enn sjást ummerki eftir það. Þá þurftu börn úr höfuðborginni að bíða í rútu, nestislaus og allslaus þar til góðhjartaður veitingamaður mætti á svæðið með næringu handa þeim.

Fallegt var að horfa yfir Djúpið er við keyrðum niður af heiðinni. Eftir um klukkustundar akstur komum við í Skjaldfannardal, en börn þaðan eru keyrð daglega til Hólmavíkur þar sem þau gagna í skóla. Stoppað var í Kaldalóni og gengið niður að minnisvarða um Sigvalda Kaldalóns, enn var mikil hraðferð á logninu. Kristín leiðsögumaður var hafsjór fróðleiks um Sigvalda og sagði margar sögur af honum. Næst var haldið út Snæfjallaströndina að Unaðsdal þar sem Jón Helgason, sem lengi var formaður Einingar, fæddist. Utan Unaðsdals er engin byggð nema orlofshús. Ekið var yfir brúna niður að kirkjunni, en bóndinn á bænum var mjög fúll og skammaði bílstjórann fyrir að aka yfir brúna, það mátti víst ekki. Því næst var stoppað í Dalbæ til að fara á snyrtinguna. Þar tók á móti okkur eiginkona „brúarvarðarins“ og voru hennar móttökur mun hlýlegri. Í Dalbæ er merkilegt mynda- og sögusafn úr hinum gömlu byggðum Snæfjallastrandar.

Hádegishlé var tekið í Kaldalóni í hávaði roki, semsagt enn var lognið á hraðferð, en við fundum okkur gott skjól undir jökulruðningunum. Sumir fóru upp á ruðningana en þar var varla stætt og gróðurinn sem þar var lá allur flatur. Leiðsögumanninum varð þá að orði að Svenni bílstjóri væri komin n í síðermaskyrtu og spunnust þá miklar og háværar umræður eins og um margt annað, t.d. húfuna hans Bjössa.

Því næst var farið til baka og keyrt hinum megin við Djúpið, inn Ísafjörð og ekið til Reykjaness. Þar átti að stoppa í 15 mínútur en stoppað varð aðeins lengra vegna fatamarkaðar sem þar var opinn. Á Reykjanesi er gömul sundlaug og reisulegar byggingar sem því miður hafa ekki komist í kynni við málningu. Í gömlum heimildum kemur fram að upp úr miðri 19. öld (jafnvel um 1830) hófst sundkennsla á staðnum. Fyrst mun hafa verið kennt í Hveravíkinni í sjónum, niður undan núverandi sundlaug, en um 1890 er tekin upp skipuleg sundkennsla á vegum sýslunefndar Ísafjarðarsýslu í sundlaug sem þá hafði verið gerð ofar á Reykjanesinu. Á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar var svo núverandi sundlaug gerð, en hún hefur verið endurbætt og stækkuð mikið síðan.

Vatnsfjörður var næsti áfangastaður en þaðan var ekið til Mjóafjarðar. Vatnsfjörður var fornt höfðingjasetur allt frá 10 öld. Þar fannst jarðgerður hjallur frá 19 öld og fornir munir hafa verið grafnir þar upp. Kirkja hefur staðið í Vatnsfirði í aldanna rás og er sú sem stendur þar núna ein af elstu steinsteyptu kirkjum Íslands. Er ekið var heim til Hólmavíkur á ný í lok dags hófst söngkeppnin „Hver hefur hæst.“ Margir háðu harða baráttu en enginn vann orustuna. Er heim var komið fóru nokkrir ferðafélagar í sund fyrir kvöldmat og komu heim seint um kvöldið eins og hundar af sundi því það rigndi eldi og brennisteini.

Heimferð
Lagt var af stað heim til Akureyrar í sól og blíðu. Keyrt var yfir Þröskulda, í gegnum Króksfjarðarnes, yfir Gilsfjörðinn og í Ólafsdal sem er merkur sögu- og minjastaður. Þar var t.d. fyrsti búnaðarskóli Íslands stofnaður af frumkvöðlinum Torfa Bjarnasyni árið 1880. Í Ólafsdal var gengið um grænar grundir og leikið við hundinn á bænum. Þetta er mjög flottur og áhugaverður staður sem gaman væri að stoppa lengur á. Til dæmis væri hægt að fara um margar fallegar gönguleiðir. Því næst var ekið að Skarði á Skarðsströnd þar sem tekið var stutt stopp og kirkjan skoðuð. Þessi kirkja er í einkaeign og er öll hin glæsilegasta. Margir mjög merkir gripir eru í kirkjunni, t.d. altaristafla með alabastursmyndum frá 15. öld, sem Ólöf ríka er sögð hafa gefið kirkjunni.

Þó það væri ískalt í veðri þá var stoppað í Klofningi og snæddur hádegisverður úti í guðsgrænni náttúrunni. Síðan var Fellsströndin ekin, framhjá Staðarfelli og þar var þeim sem vildu boðið að hoppa af. Enginn vildi kannast við það að þurfa á því að halda. Í Búðardal var keyrt um bæinn og svo var keyrt yfir Laxárdalsheiði á leið heim á ný.

Í Varmahlíð var tekin hópmynd af ferðalöngunum og þar skildu einnig leiðir okkar og leiðsögumannsins og var henni þökkuð leiðsögnin með góðu lófaklappi. Enn einni góðri Einingar-Iðjuferð er lokið. 

Takk fyrir mig,
Brynja Skarphéðinsdóttir