Mennta - og menningarmálaráðuneytið hefur formlega viðurkennt Félagsmálaskóla Alþýðu sem framhalds- og fullorðinsfræðsluaðila, skv. ákvæðum laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Félagsmálaskólinn býður upp á námskeið fyrir Trúnaðarmenn, stjórnarmenn og starfsfólk stéttarfélaga. Meðal atriða sem metin voru sérstaklega eru aðstaða til kennslu og námskeiðahalds, skipulag náms og umsjón með því, námsskrár eða námslýsingar, hæfni m.t.t. þekkingar og reynslu, fjárhagsmálefni, tryggingar og tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna.
Félagsmálaskóli alþýðu er starfræktur af ASÍ og BSRB. MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, fer með rekstur og málefni skólans. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks.
Markmið MFA er að bjóða uppá fræðslu og námskeið sem styrkja talsmenn í starfi til að þeir séu betur í stakk búnir að takast á við kröfur sem gerðar eru og stöðugar breytingar í samfélaginu. Lögð er áhersla á að námsframboð miðist við þarfir og aðstæður félaga hverju sinni. MFA býður upp á ráðgjöf og þarfagreiningu fyrir einstök félög og geta stéttarfélögin þannig nýtt sér námskeið og fræðslu til að móta starf og stefnu. Í samráði við þarfir félaga er hægt að þróa námskeið og námsefni.
Námsframboð Félagsmálaskólans má sjá hér.