Félagsmálaskóli alþýðu

Félagsmálaskóli alþýðu er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks. Skólinn sér m.a. um trúnaðarmannanámskeið fyrir stéttarfélög. 

Til þess að bregðast við samkomubanni sl. haust færði skólinn öll sín námskeið á stafrænt form, en þau voru í boði í fjarnámi um tölvur og snjalltæki. Í nýjasta blaði félagsins sem kom út í síðustu viku var rætt við Eyrúnu Björk Valsdóttur, sviðsstjóra á sviði fræðslu og þekkingar hjá ASÍ og skólastjóra Félagsmálaskólans, og forvitnaðist um hvernig námið hefði gengið í vetur við mjög svo sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu.

Eyrún Björk segir að samhent átak Félagsmálaskólans og stéttarfélaga hafi gert þessar breytingar mögulegar. „Við þurftum að aðlaga okkur að þessari óvæntu stöðu, bregðast við á skjótan hátt til að missa ekki af lestinni. Auðvitað var allur undirbúningur fyrir námskeiðin töluvert flóknari og það komu upp alls kyns vandamál sem voru leyst hratt og örugglega. Sem betur fer tókust þessar breytingar mjög vel og þátttakendur almennt mjög ánægðir.“ 

Nýtt kennslukerfi
Í byrjun þessa árs innleiddi skólinn nýtt kennslukerfi, LearnCove, þar sem hægt er að bjóða þátttakendum upp á gagnvirkt vefnám sem hver og einn, einstaklingur eða hópur, getur sinnt hvar og hvenær sem er. „Þetta er bylting í þjónustu enda fjölmargir hópar sem hafa átt erfitt með að sækja þá fræðslu sem hefur verið í boði hingað til, bæði vegna fámennis og eins vakta- og vinnufyrirkomulags. Kerfið er einfalt í notkun með notendavænt viðmót en þátttakendur geta t.d. valið milli þess hvort umhverfið er á íslensku, ensku, pólsku, dönsku eða næstum hvaða tungumáli sem er. Á sama hátt er auðveldara að miða námið að hverjum einstaklingi. Sumum hentar að fara hratt í gegnum námið meðan aðrir vilja vinna hægar, sumir vilja horfa á myndbönd en aðrir lesa og svo framvegis,“ sagði Eyrún og bætti við að „LearnCove og gagnvirkt vefnám er ákaflega góð viðbót við þjónustu skólans en staðnámið mun enn eiga sinn sess í flórunni. Þessi fjölbreytileiki gerir félögunum og skólanum þó kleift að sníða t.d. lotur í trúnaðarmannafræðslu að hverjum hópi fyrir sig. Í stað þess að vera bundin af þriggja daga lotum væri hægt að sjá fyrir sér einn dag í staðnámi og svo viðbót í gagnvirku vefnámi, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.“ 

Í lokin vildi Eyrún benda á að send var út könnun til félaganna þar sem kannaður var áhugi á kennslufyrirkomulagi og var nokkuð afgerandi niðurstaða að best væri að blanda saman ólíkum leiðum, staðnámi, fjarnámi (s.s. Zoom) og gagnvirku vefnámi.