Í lok síðasta árs ákvað framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) að framkvæma könnun meðal aðildarfélaga á þeirri þjónustu sem þau veita félagsmönnum sínum. Þegar niðurstaðan hjá Einingu-Iðju er skoðuð kemur í ljós að félagið er vel rekið og veitir félagsmönnum sínum almennt mjög góða þjónustu og réttindi. Þessi niðurstaða er ánægjuleg og í samræmi við niðurstöður kjara- og viðhorfskönnunar sem gerð var fyrir félagið í fyrra, er 94% félagsmanna sögðust vera ánægðir með þá þjónustu sem félagið veitir. Stjórn félagsins hefur farið yfir niðurstöðurnar frá SGS og lýsir yfir ánægju sinni með það að stjórnin og starfsmenn félagsins séu að sinna sínu starfi með mikilli prýði. Geta má þess að Eining-Iðja var eitt fyrsta stéttarfélag á landinu til að setja sér siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn.
Fram kom í skýrslunni að réttindi félagsmanna í sjúkra- og orlofssjóði eru til fyrirmyndar og að félagavefur sem félagið tók í gagnið fyrir nokkrum árum sé jákvætt skref í þjónustu við félagsmenn. Í fyrra tók félagið í notkun launagreiðendavef sem auðveldar launagreiðendum að senda inn skilagreinar á rafrænan hátt.
Jafnframt segir að félagið standi sig vel í upplýsinga- og fræðslumálum og að félagið haldi úti öflugri heimasíðu. Stjórn félagsins ákvað fyrr á árinu að endurnýja heimasíðuna og stendur sú vinna yfir. Ný heimasíða verður tekin í gagnið síðar á árinu og því verður enn auðveldara fyrir félagsmenn að nálgast upplýsingar sem viðkomandi vantar.