Framkvæmdastjórn Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC) fjallaði á fundi sínum á Möltu um miðjan mars m.a. um félagsleg undirboð á vinnumarkaði og baráttuna gegn þeim. Ljóst er að félagsleg undirboð eru vaxandi mein á evrópskum vinnumarkaði, eins og hér á landi, en fái slík starfsemi að vaxa óhindrað grefur hún undan heiðarlegum vinnumarkaði þar sem launafólk býr við sanngjörn laun, réttindi og tryggar vinnuaðstæður. Framkvæmdastjórnin telur því afar brýnt að bregðast af hörku gegn allri slíkri svikastarfsemi.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, sem á sæti í framkvæmdastjórn ETUC, kynnti átakið Einn réttur – ekkert svindl! á fundinum á Möltu en það snýr einmitt að undirboðum og svikastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.