Á vef ASÍ segir að Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) blæs í dag til átaksins Evrópa þarf launahækkun (Europe needs a pay rise) og mun það standa allt árið 2017. Og ástæðan er ærin. Evrópsk fyrirtæki hafa verið að rétta úr kútnum að undanförnu en víða hefur launafólk í álfunni ekki fengið launahækkun svo árum skiptir. Hér þurfa verkalýðsfélögin að draga vagninn. Það þarf að slá á þá möntru atvinnurekenda að launahækkanir leiði til atvinnuleysis, þannig er það ekki. Auknar ráðstöfunartekjur gagnast ekki bara launafólki sjálfu heldur munu þær auka neyslu og eftirspurn í samfélaginu sem styrkir efnahaginn almennt. Og þar með hag fyrirtækjanna. Launafólk í Evrópu hefur unnið fyrir launahækkununum, það á hana skilið.
Að auki horfir ETUC til þess að það þurfi auka launajafnrétti í Evrópu. Þannig að t.d. starfsmaður í bílaverksmiðju VW í Tékklandi nálgist verkamann í sömu stöðu í verksmiðju VW í Þýskalandi í launum. Þess vegna þurfa þeir sem vinna á láglaunasvæðum að hækka meira en hinir.
Sem betur fer hafa laun á Íslandi hækkað reglulega á síðustu árum og ef kjarasamningum verður ekki sagt upp í lok þessa mánaðar, munu félagsmenn í stéttarfélögum innan ASÍ fá almenna launahækkun upp á 4,5% 1. maí 2017 og framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð mun hækka úr 8,5% í 10% þann 1. júlí 2017.