Ertu verktaki eða starfsmaður?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar. Á heimasíðu SGS er fjallað um þennan mun og má lesa nánar um hann hér fyrir neðan. 

Þú ert starfsmaður ef þú semur um að mæta á ákveðnum tíma á ákveðinn stað og ljúka vinnu á ákveðnum tíma. 

Þú ert starfsmaður ef þú vinnur undir verkstjórn annarra og ert í fastri vinnu. 

Þú ert verktaki ef þú gerir samning um einstaka verk sem þú ræður hver vinnur og hvernig. Samið er um greiðslu fyrir verkefnið en þú átt atvinnutækin sjálf/ur og getur ráðið aðra til að sinna verkinu. Þú ert fjárhagslega ábyrg/ur fyrir verkefninu sjálf/ur 

Ef þú ert verktaki:

  • Ertu ekki varinn af kjarasamningum þegar kemur að til dæmis lágmarkslaunum
  • Hefurðu ekki uppsagnarfrest
  • Safnarðu ekki orlofi og getur því ekki tekið frí á launum
  • Færðu ekki greitt í veikindum
  • Safnarðu ekki sjálfkrafa í lífeyrissjóð
  • Ertu ekki slysatryggð/ur gegnum atvinnurekendur
  • Þarftu sjálf/ur að skila tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóð, slysatryggja þig o.s.frv. 

Passaðu uppá réttindi þín! Gerviverktaka er ólögleg og skerðir réttindi almenns launafólks!