Ertu í félagi sem semur fyrir þitt starf?

Verkfallsverðir félagsins hafa tekið eftir því í dag að nokkrir starfsmenn fyrirtækja sem falla undir samningssvið Einingar-Iðju eru að greiða í önnur stéttarfélög. Því vill félagið koma því á framfæri að starfsmenn fyrirtækja sem sannarlega eru að starfa eftir kjarasamningum Einingar-Iðju við Samtök atvinnulífsins og falla undir þær verkfallsaðgerðir sem nú eru í gangi eiga að vera í Einingu-Iðju. 

Starfi þessir félagsmenn í verkfalli eru þeir að brjóta lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980. Verkfall nær ekki einungis til félagsmanna í því stéttarfélagi sem boðar til verkfallsins, heldur til allra þeirra sem taka kjör eftir þeim kjarasamningi sem verið er að knýja á um að gerður verði. 

Starfs- og félagssvæði Einingar-Iðju er allt Eyjafjarðarsvæðið og til að geta gætt að réttindum starfsmanna sem starfa á svæðinu, undir samningum félagsins, verða þeir auðvitað að vera okkar félagsmenn.