Ert þú búin/nn að skrifa undir?

Skjáskot af lending.is
Skjáskot af lending.is

Rúmlega 29.000 manns voru nú rétt áðan búin að skrifa undir áskorun til Reykjavíkurborgar og Alþingis um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Félagið Hjartað í Vatnsmýrinni setti af stað undirskriftarsöfnun þess efnis sl. föstudag á heimasíðunni lending.is. Á vefsíðunni hefur einnig verið safnað saman miklu af upplýsingum tengdum málefninu.

Þetta er málefni sem snertir alla landsmenn og því hvetur félagið alla til að veita þessu stuðning.

Í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2030 er gert ráð fyrir að flugvallarstarfsemi verði aflögð í Vatnsmýri í nokkrum áföngum. Í staðinn rísi blönduð byggð. Félagið Hjartað í Vatnsmýri var stofnað í síðasta mánuði til að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram á sama stað. Frestur til að gera athugasemdir við aðalskipulag borgarinnar er til 20. september og verða undirskriftirnar afhentar þá.

Á síðunni lending.is segir m.a. að flugvöllurinn sé hjartað sem slær allan sólarhringinn, árið um kring. Þangað komi slasaðir sem þurfi á bráðamóttöku, starfsmenn á fundi og vörur til fyrirtækja auk ferðamanna.