Ert þú búin að fara í skoðun?

Nú er bleikur mánuður, sem þýðir að athygli er vakin á nauðsyn þess að fara í krabbameinsskoðun. Í könnun sem Maskína gerði fyrir Krabbameinsfélagið kom í ljós að aðeins rúmlega helmingur svarenda, af konum á aldrinum 23-40 ára vissu að sum stéttarfélög taka þátt í kostnaði við krabbameinsleit fyrir félagsmenn sína. Jafnframt kom fram í könnuninni að kostnaður við skoðunina var ein af ástæðum þess að konur mættu ekki í leghálskrabbameinsleit. Sjúkrasjóður Einingar-Iðju endurgreiðir að fullu gjald sem tilfellur á leitarstöð. Eining-Iðja hvetur félagskonur sínar til að fara í slíka skoðun.

Vert er að benda félagsmönnum á síðuna www.bleikaslaufan.is þar er hægt að panta tíma í leit og skora á konur að panta tíma.

Konur verða að vera meðvitaðar um krabbamein og sjálfa leitina. Hér má lesa nokkrar staðreyndir sem mikilvægt er að þekkja.

Staðreyndir um krabbamein kvenna

  • Ár hvert greinast að meðaltali um 700 íslenskar konur með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. 
  • Um 210 konur greinast ár hvert með brjóstakrabbamein. Helmingur þeirra er á aldrinum frá 50 til 69 ára en þær yngstu á þrítugsaldri. Um níunda hver kona getur búist við að fá brjóstakrabbamein. Ár hvert deyja 35 – 40 konur úr brjóstakrabbameini.
  • 80 – 85 konur greinast ár hvert með lungnakrabbamein og um 65 deyja úr sjúkdómnum.
  • Rúmlega 60 konur greinast ár hvert með krabbamein í ristli og endaþarmi og um 25 deyja úr sjúkdómnum.
  • Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 40% kvenna sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 70% vænst þess að lifa svo lengi. Sambærilegar tölur fyrir brjóstakrabbamein eru 60% og 90%.
  • Nú eru á lífi um 7.000 konur sem hafa fengið krabbamein, þar af tæplega 1.200 sem hafa lifað í tuttugu ár eða lengur. 
  • Nú eru á lífi um 2.700 konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein, þar af tæplega 400 sem hafa lifað í tuttugu ár eða lengur. 
  • Hægt er að draga úr líkum á krabbameinum með heilbrigðum lífsháttum svo sem reykleysi, hreyfingu, takmörkun áfengisneyslu og með neyslu hollrar fæðu. Einnig er mikilvægt að forðast sterka sól, fara ekki í ljósabekki og forðast smithættu sem fylgir óábyrgu kynlífi.
  • Almennt gildir að því fyrr sem krabbamein greinast, því betri eru horfurnar á lækningu.

Staðreyndir um krabbameinsleit

  • Konur á aldrinum frá 23 til 65 ára eru boðaðar í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti.
  • Hægt er að greina forstig leghálskrabbameins og eru þá mjög góðir möguleikar á lækningu.
  • Konur á aldrinum frá 40 til 69 ára eru boðaðar í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti.
  • Erlendar rannsóknir benda til þess að með því að taka röntgenmyndir reglulega af brjóstum kvenna megi lækka dánartíðni vegna krabbameins í brjóstum verulega.

Staðreyndir um Bleiku slaufuna

  • Síðan árið 2000 hefur októbermánuður verið helgaður árvekni um krabbamein hér á landi.
  • Ýmis mannvirki verið lýst í bleikum lit í byrjun október síðan árið 2001.
  • Bleik slaufa, sem barmmerki, er seld til stuðnings baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Upplýsingar frá Krabbameinsfélaginu, október 2014.