Um þessar mundir leggja bæði Starfsgreinasambandið (SGS) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) ríka áherslu á aukna upplýsingagjöf til útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Nýverið hleypti ASÍ af stokkunum samstarfsverkefninu „Einn réttur – ekkert svindl!“, en því er beint er gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi, með sérstakri áherslu á útlendinga og ungt fólk. Nánari upplýsingar um samstarfsverkefni ASÍ má m.a. málgast hér.
Nú í febrúar mun SGS setja málefni erlends starfsfólk í brennidepil með sérstöku kynningarátaki. Átakið felst m.a. í því að kynna helstu réttindi og skyldur fyrir erlendu starfsfólki með dreifingu á kynningarefni í gegnum facebooksíðu SGS og verður efnið á íslensku, ensku og pólsku. Frekari upplýsingar um kynningarátak SGS má nálgast hér.