Heimilisþrif eru algeng og er nóg að fara inn á vefsíðuna bland.is til að sjá líflegan markað þar sem vinna gengur kaupum og sölum fyrir hreint ótrúlega lágar upphæðir. Oft er um að ræða einyrkja og að mér læðist sá grunur að ekki sé allt upp gefið til skatts. Þar með er ekki einungis verið að hafa af starfsfólki réttindi heldur getur verkkaupi verið skaðabótaábyrgur ef vinnuslys verður. Svört vinna er ekki í lagi enda er með henni verið að svindla á samfélaginu og allir eru verr settir ef eitthvað bregður út af.
Verktakavinna er sennilega algengasta formið á heimilisþrifum þar sem verktaki gefur út reikning fyrir vinnunni sinni og verkkaupi greiðir fast verð fyrir þrifin eða verð á hverja klukkustund. Það er ekkert að því að kaupa verktöku eða vera verktaki, ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Skilyrðin eru meðal annars þau að verktakinn stýri verkinu sjálfur, geti meðal annars sent einhvern annan fyrir sig og hefur stjórnunarvald yfir verkinu. Verktakinn skaffar sjálfur efni og áhöld og gerir verksamning um vinnuna og að um ákveðið og tímabundið verkefni er að ræða. Ríkisskattstjóri hefur gefið út góðar leiðbeiningar þar sem skilyrðin eru tíunduð og hægt er að meta hvort viðkomandi er verktaki eða það sem er kallað gerviverktaki, þ.e.a.s. verktaki sem á í raun að vera launamanneskja á launaskrá.
En að krónum og aurum: Launafólk ávinnur sér réttindi á vinnumarkaði með því að skila sköttum og gjöldum og sumar af þessum greiðslum á atvinnurekandi að standa skil á. Segjum sem svo að manneskja þrífi í verktöku fyrir 2.500 krónur á tímann. Hvað verður eftir sem laun þegar búið er að draga frá það sem atvinnurekandi á að greiða í launateng gjöld?
greitt á tímann | 2.500 kr. | ||
virðisaukaskattur | 25,50% | 637,5 kr. | |
tryggingagjald | 7,59% | 189,75 kr. | |
mótframlag í lífeyrissjóð | 8% | 200 kr. | |
sjúkrasjóður | 1% | 25 kr. | |
starfsmenntasjóður | 0,30% | 7,5 kr. | |
orlofssjóður | 0,25% | 6,25 kr. | |
starfsendurhæfingasjóður | 0,13% | 3,25 kr. | |
orlof | 10,17% | 254,25 kr. | |
Samtals framlag launagreiðanda | 1.323,5 kr. | ||
laun verktaka fyrir skatt | 1.176,5 kr. |
Nær allar þessar greiðslur gera það að verkum að launafólk ávinnur sér meiri réttindi eftir því sem greitt er hærra í viðkomandi sjóði. Þarna er ekki búið að taka tillit til desemberuppbótar (73.600 krónur á ári) eða orlofsuppbótar (39.500 krónur á ári) né greiðslna vegna helgidaga þegar launafólk er í fríi en heldur fullum launum. Það er heldur ekki búið að taka tillit til kaffi- og matartíma sem greiddir eru af atvinnurekanda. Ferðakostnaður á milli staða er heldur ekki talinn inn í þessa útreikninga en það getur verið töluverður tími og kostnaður sem fylgir ferðum innan hefðbundins dagvinnutíma. Að lokum þá ber atvinnurekendum að tryggja launafólk fyrir dauða og örorku. Að þessu undanskildu eru eftir í vasa verktakans 1.177 krónur og af þeirri upphæð á hann eftir að greiða skatta, félagsgjald í stéttarfélag (1%) og lífeyrissjóðsiðgjald launagreiðanda (4%).
Þeir kjarasamningar sem komast næst því að eiga við þrif inni á heimilum eru samningar Starfsgreinasambandsins við Bændasamtök Íslands fyrir fólk sem starfar á bændabýlum. Lágmarkstímakaup þar í dagvinnu er 1.249,06 krónur en launin hækka með hverju árinu sem unnið er og að sjálfsögðu er greitt meira fyrir yfirvinnu og vinnu á stórhátíðum. Fólk sem hefur lokið einhverju námi raðast svo hærra í launatöfluna. Ef greiddar eru 2.500 krónur á tímann fyrir þrif í verktakavinnu er verið að greiða undir lágmarkslaunum í landinu og það er ólöglegt. Því er von að spurt sé:
Ert þú að fá greitt fyrir þína vinnu?
Er samviskan þín jafn hrein og heimilið eftir aðkeypt þrif?
Drífa Snædal
Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands