Á vef Samherja má finna frétt í tilefni af því að Sigríður Jóna Gísladóttir lét af störfum hjá ÚA um áramótin eftir fjörutíu ára starf. Hún var um langt skeið trúnaðarmaður Einingar-Iðju á vinnustaðnum, sat hún lengi í samninganefnd félagsins ásamt því að vera í trúnaðarráði. Hún var sæmd gullmerki Einingar-Iðju á aðalfundi félagsins árið 2019.
Sigríður Jóna segir á vef Samherja m.a. að gríðarlegar breytingar hafi orðið á þessum fjórum áratugum, sérstaklega tæknilegar. Einnig fjallar hún þar um starf trúnaðarmanna, en hún var eins og áður segir, trúnaðarmaður starfsmanna um langt skeið. „Jú, auðvitað getur þetta hlutverk verið strembið á köflum en mér var trúað fyrir þessu í allan þennan tíma, þannig að eitthvað hlýt ég að hafa gert rétt. Samskiptin við fyrirtækið hafa almennt verið góð þótt auðvitað hafi blásið á móti stöku sinnum á öllum þessum árum. En heilt yfir er ÚA afskaplega góður vinnustaður, enda margir sem hafa starfað hjá fyrirtækinu svo að segja alla starfsæfina. Launin eru þokkalega góð og aðbúnaðurinn til fyrirmyndar.“