Fimmta þing Starfsgreinasambands Íslands var sett kl. 10 í morgun með ræðu Björns Snæbjörnssonar, formanns sambandsins. Ræða Björns fer hér á eftir.
…
Félags- og húsnæðismálaráðherra, forseti ASÍ, kæru gestir og ágætu þingfulltrúar.
Ég býð ykkur velkomin til fimmta þings Starfsgreinasambands Íslands og óska okkur öllum til hamingju með afmælið.
Fimmtán árum eftir stofnun Starfsgreinasambandsins komum við saman á ný undir yfirskriftinni „Sterkari saman“ sem hefur svo sannarlega verið raunin. Ég held að fáir efist um réttmæti ákvörðunarinnar, sem tekin var á sínum tíma um að sameina Verkamannasambands Íslands, Þjónustusambands Íslands og Landssamband iðnverkafólks í eitt sterkt samband, verkafólki á Íslandi til heilla. Í fimmtán ár hefur Starfsgreinasambandið verið vettvangur fulltrúa verkafólks á Íslandi til að leggja sameiginlegar línur í baráttunni fyrir betri kjörum, og þar með auknum lífsgæðum.
Í byrjun voru aðildarfélög Starfsgreinasambandsins 50 en eru í dag 19 þessi fækkun hefur gerst vegna sameiningar félaga um allt land. Þrátt fyrir þessa fækkun aðildarfélaga hefur ekki endilega reynst auðveldara að ná samstöðu í sumum málum og oft höfum við tekist á innbyrðis. Stundum höfum við gengið sameinuð til verka en oft höfum við farið fram í minni einingum. Ekki eitt augnablik hef ég efast um að allir sem starfa innan hreyfingarinnar bera hag síns fólks fyrir brjósti og velja þær leiðir sem viðkomandi félag telur árangursríkast hverju sinni. Oft hefur það gagnast verkafólki á Íslandi vel að mismunandi áherslur komi fram frá mismunandi félögum.
Við samningaborðið hefur þá orðið að taka tillit til allra sjónarmiða. Eftir átök síðasta vetrar efast enginn um að raddir verkafólks á Íslandi er sterkar. Við vorum sýnileg í einni hörðustu kjarabaráttu síðustu áratuga, en það er nú stundum þannig að starf okkar er ekki alltaf jafn sýnilegt.
Með fækkun verkalýðsfélaga síðustu fimmtán árin gafst möguleiki á frekari sérhæfingu í flóknu umhverfi og þar með betri þjónusta fyrir 50.000 félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Það er ekki bara að félagsmennirnir okkar hafi betri aðgang að samnýttum orlofshúsum og sterkari sjúkrasjóðum, heldur gefa sterkari félög möguleika á að bæta þjónustuna varðandi kjaramál, fræðslumál, þjónustu við atvinnuleitendur og starfsendurhæfingu og það hefur virkilega verið raunin.
Fræðslusjóðirnir eru mjög vel nýttir og hafa gagnast félagsmönnum bæði til að sækja sér aukna menntun og að auka lífsgæði í gegnum tómstundir. Aukin fræðsla og menntun hefur gert það að verkum að stórir hópar innan okkar vébanda eru orðnir sérhæfðari og verðmætari starfsmenn og við höfum, sem betur fer, náð árangri í mörgum kjarasamningum um að gera betur við þetta fólk í launum og hvetja þar með enn frekar til aukinnar fræðslu og menntunar.
Það skiptir líka miklu máli að félagsmenn geti fyrirvaralaust sótt sér upplýsingar og fengið skjóta úrlausn sinna mála hjá félaginu sínu, en það gerist best með því að félögin séu sterk og búi yfir mannskap og þekkingu til að bregðast fljótt við. Það væri gaman að taka saman öll þau mál sem félagsmenn hafa notið þess að eiga bakhjarl í félaginu sínu síðustu áratugi, en því miður liggur ekki fyrir slíkt yfirlit. Við sem erum hér inni vitum hins vegar að þessir félagsmenn skipta þúsundum. Það ber vott um gott og traust starf hreyfingarinnar að hún er orðin svo sjálfsögð sem öryggisnet vinnandi fólks að það þykja ekki tíðindi þegar fólk nýtir þjónustuna.
Við komum saman til fimmta reglulegs þings Starfsgreinsambandsins eftir harðan vetur og mikil átök sem sér ekki fyrir endann á. Við sóttum verulegar hækkanir fyrir okkar fólk í samningum á almenna markaðnum og gagnvart ríkinu, ennþá er þó ósamið við sveitarfélögin. Það tókst að koma lágmarksbónusum í fiskvinnslu inn í samningana og semja um meiri hækkanir til fiskverkafólks og var það bæði tímabært og sanngjarnt. Við náðum ýmsu inn í samningana umfram launahækkanir, en það sem hæst bar í samningunum að mínu mati var vinnulag okkar, samstaða og styrkur. Mörg þúsund félagsmenn okkar tóku þátt í undirbúningi að samningunum, mættu á fundi, svöruðu spurningakönnunum og komu áherslum sínum til skila til okkar. Verkalýðshreyfingin sýndi með mjög áberandi hætti að hún er fjöldahreyfing og forystan er með skýrt umboð frá verkafólki.
Þátttakan í atkvæðagreiðslum um verkfall var betri en við höfum áður séð og niðurstöðurnar voru afgerandi hvort sem fólk á landsbyggðinni eða höfðuborgarsvæðinu var spurt. Þegar samningarnir voru lagðir fyrir félagsmenn var niðurstaðan einnig mjög skýr. Þetta skýra umboð, bæði í viðræðunum sjálfum og eftir undirritun samninganna gagnaðist ekki bara í baráttunni síðasta vetur heldur mun hún nýtast okkur áfram. Verkafólk á Íslandi er tilbúið að berjast fyrir bættum kjörum og stendur þétt saman þegar nauðsyn krefur. Verkalýðshreyfingin er sterk með skýrt umboð! Þetta voru skilaboð vetrarins!
Kjarabarátta er í eðli sínu langhlaup og þó við getum fagnað tímabundnum árangri þá vitum við það öll að baráttan heldur áfram, og mörg verkefni eru framundan. Við þurfum að halda áfram að sækja á í kjaramálum, fræðslumálum og almennum réttindum launafólks en við þurfum líka að verjast þeim ógnunum sem herja á og taka nýjum áskorunum. Þegar við undirrituðum samningana síðastliðið vor héldum við að friður myndi ríkja á vinnumarkaði næstu árin. Við vorum þess fullviss að samstaðan sem ríkti í samfélginu öllu um að hækka sérstaklega lægstu laun myndi halda. Gerðardómur komst að annarri niðurstöðu, eins og oft áður, og það er hætt við því að árangurinn sem við náðum með ábyrgum og góðum samningum fyrir okkar fólk verði til lítils ef verðbólga og dýrtíð vex í kjölfar dómsins.
Við erum því stödd í óvissuástandi og það kemur ekki í ljós fyrir en í febrúar hvort við náum að afstýra frekari átökum á vinnumarkaði. Við förum inn í viðræður og mat á forsendum með sama hug og alltaf, að verja lægstu launin og sækja á af ábyrgð með hagsmuni allra að leiðarljósi. Kjör okkar fólks og lífsgæði felast ekki bara í launaumslaginu heldur líka í aðgangi að heilbrigðisþjónustu, góðu húsnæði og almennri velferð. Breytingar á grunnþjónustu og ákvarðanir stjórnvalda hafa oft meiri áhrif á fólk sem hefur lægstu launin í samfélaginu heldur en hina sem geta keypt sér þjónustu og greitt úr eigin vasa, hafa úr meiru að spila. Það skiptir máli að fjármál ríkis og sveitarfélaga taki mið af þessu, stjórnvöld geta aldrei verið stikkfrí gagnvart verkafólki og við megum ekki trúa því að það sé bara okkar verkefni að gæta hagsmuna launafólks. Það er sameiginlegt verkefni og stjórnvöld verða að axla ábyrgð á góðri grunnþjónustu, sanngjörnu skattkerfi og húsnæðiskerfi sem býður uppá gott og öruggt húsnæði.
Í átökunum í vetur fundum við vel fyrir því að verkalýðshreyfingin er í eðli sínu alþjóðlegt fyrirbæri. Félagar okkar frá öllum heimshornum sendu okkur stuðnings- og baráttukveðjur og voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að við gætum náð árangri. Í alþjóðlegum samanburði eru verkalýðsfélög á Íslandi mjög sterk og við höfum náð að tryggja lágmarkskjör á vinnumarkaði betur en margir aðrir.
Víða í Evrópu er ungt fólk í miklum erfiðleikum. Ef það fær vinnu þá er það tímabundið ráðið, í gegnum starfsmannaleigur eða á svokölluðum núlltímasamningum þar sem ekkert starfshlutfall er ákveðið fyrirfram. Sem sagt á kjörum þar sem það getur ekki gert áætlanir langt fram í tímann, fær þess vegna ekki lán fyrir húsnæði eða tryggan leigusamning og á erfitt með að byggja upp framtíð. Að auki fáum við fréttir frá Finnlandi um að ríkisstjórnin þar ætli að svifta aðila vinnumarkaðarins samningsfrelsi í nokkur ár með lögum og skerða rétt vinnandi fólks. Þessi dæmi segja okkur að réttindi sem hafa verið byggð upp í áratugi geta horfið skjótt ef þeirra er ekki gætt. Verkefni verkalýðshreyfingarinnar er að verja áunnin réttindi ekki síður en að sækja fram.
Það hafa aldrei verið fleiri flóttamenn í heiminum síðan í síðustu heimsstyrjöld og Evrópa mun taka miklum breytinum af völdum þeirra næstu áratugi. Hvaða skoðanir sem við höfum á því hvort flóttafólk komi hingað til lands eða ekki, þá er það staðreynd að hingað mun koma flóttafólk, á næstu árum og áratugum. Við getum ákveðið að taka þau ekki inn í samfélagið okkar og búa þannig til hóp á jaðrinum, auka svarta atvinnustarfsemi, félagsleg vandamál og undirboð sem mun leiða til verri vinnumarkaðar fyrir okkur öll. Eða – við getum ákveðið að leggja okkar af mörkum til að flóttafólk komist inn í samfélagið eins fljótt og örugglega og hægt er, viti réttindi sín og skyldur. Þannig getum við varið Íslenskan vinnumarkað fyrir undirboðum með verri skilyrðum fyrir okkur öll. Þarna þarf verklaýðshreyfingin að axla ábyrgð og hefur hlutverki að gegna. Heimurinn er að breytast, Ísland er að breytast og verkalýðshreyfingin verður að fylgja með. Verkefni okkar verða stærri og flóknari en áður og skipulag okkar verður að vera þannig að við höfum kraft og getu til að sinna þeim.
Skipulagið innan hreyfingarinnar má aldrei vera svo fastmótað að það henti ekki hlutverki okkar. Stéttarfélög þurfa að vera stærri og í meira samstarfi en áður því of lítil og veik félög geta ekki sinnt sínu hlutverki svo vel sé. Við þurfum stöðugt að skoða hvort formið sem við notumst við í dag geti þróast til betri vegar. Hvaða form sem við veljum í framtíðinni þá er eitt víst að verkalýðshreyfingin er lykill að velsæld og lífsgæðum í landinu. Við höfum sótt fram og varið rétt okkar í rúma öld og við stöndum áfram vaktina!
Kæru félagar,
Þingið okkar er mikilvægt því hér leggjum við línurnar fyrir næstu tvö starfsár Starfsgreinasambandsins. Við söfnum saman fólki úr ólíkum áttum til að fá sem flest sjónarmið úr hreyfingunni okkar. Þannig getum við búið til skýra línu um framhaldið, hvað brennur helst á fólki og hvaða áherslur eigum við, sem bjóðum okkur fram til forystustarfa, að vera með.
Ég vænti þess að þingið verði gott og gagnlegt og segi fimmta þing Starfsgreinasambandsins sett.
Björn Snæbjörnsson