Á vef ASÍ má finna eftirfarandi frétt: Fjárlög voru samþykkt fyrir jól við óvenjulegar aðstæður í íslenskum stjórnmálum. Nýrrar ríkisstjórnar bíða stórar áskoranir við að tryggja að stjórn ríkisfjármála styðji við hinn efnahagslega stöðugleika og stuðli að félagslegri velferð og auknum jöfnuði. Sú forgangsröðun sem birtist í nýsamþykktum fjárlögum mun ekki skapa þann grundvöll.
Á alla mælikvarða ríkir þensla í íslensku hagkerfi og víða má sjá merki um ofhitnun. Þessar aðstæður kalla á vandaða hagstjórn sem tryggir að ríkisfjármálin auki ekki ofþenslu og óstöðugleika og vinni á móti peningamálastefnu Seðlabankans. Að öðrum kosti verða afleiðingarnar og viðbrögðin fyrirsjáanleg. Verðbólga eykst, vextir hækka og gengi krónunnar styrkist enn frekar. Bæði Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa bent á að ef tekið sé tillit til stöðu hagsveiflunnar sé slaki í ríkisfjármálum um þessar mundir, þvert á allar ráðleggingar.
Sú ríkisfjármálastefna sem fylgt hefur verið á liðnum árum og viðhaldið er í nýsamþykktum fjárlögum byggir á þensluhvetjandi aðgerðum á tekjuhliðinni og aðhaldsaðgerðum á útgjaldahliðinni. Skuldalækkunaraðgerðir og skattkerfisbreytingum á borð við afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkana á neyslusköttum og tollum hafa valdið því að tekjustofnar ríkisins duga ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld eins og til heilbrigðismála, barna- og vaxtabóta, húsnæðismála og innviðauppbyggingar. Þessi stefna, sem byggir á því að nota aðhald í velferðarkerfinu sem helsta hagstjórnartækið, er illa til þess fallin að treysta hinn félagslega stöðugleika og stuðla að réttlátri tekjuskiptingu.
Hagstjórn sem þessi ætti að vera Íslendingum í fersku minni enda sambærileg þeirri sem stunduð var hér á árunum fyrir hrun þegar áhersla stjórnvalda á skattalækkanir var svo mikil að velferðarþjónusta á borð við heilbrigðis- og menntakerfi voru illa fjármögnuð jafnvel áður en hrunið skall á. Á sama tíma var lítið tillit tekið til stöðu hagsveiflunnar, skatttekjur jukust mikið vegna þenslu en skattstofnar voru veiktir þannig að þeir stóðu ekki undir útgjöldum í eðlilegu árferði. Í kjölfar hrunsins þurfti því að grípa til mun meiri skattahækkana en ella til að standa undir velferðarþjónustunni. Fjallað var ítarlega um þessi hagstjórnarmistök í í Rannsóknarskýrslu Alþingis en þar segir meðal annars:
Ný ríkisstjórn hefur tækifæri til að snú við blaðinu og koma í veg fyrir að dýrkeypt mistök fyrirhrunsáranna verði endurtekin. Með því að beita ábyrgri hagstjórn sem notar ríkisfjármálin með skynsamlegum hætti til að vinna gegn ofþenslu og fullfjármagna nauðsynlegar velferðarumbætur má ná samhliða markmiðum um efnahagslegan- og félagslegan stöðugleika. Samspil þessara þátta skiptir sköpum í viðleitni aðila vinnumarkaðarins við að skapa sátt um nýja nálgun við gerð kjarasamninga, en óvissa og niðurskurður í velferðarmálum mun hamla slíkri vinnu.