Í aðdraganda þings ASÍ var jafnréttisstefna og aðgerðaáætlun sambandsins endurskoðuð og samþykkt á
miðstjórnarfundi. Í stefnunni er lögð áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins til að vinna gegn launamuni kynjanna og virkja bæði kyn
til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins og innan vébanda hreyfingarinnar.
Stefnan og aðgerðaáætlunin 2012-2016 er svohljóðandi:
Stefna
Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til starfa, starfsþróunar og launa eru meðal þeirra grundvallarþátta mannréttinda sem
verkalýðshreyfingin byggir á og skal standa vörð um. Sterk verkalýðshreyfing þrýstir á aukið jafnrétti en um leið
þarfnast baráttan víðtæks stuðnings launafólks. Alþýðusamband Íslands á að koma með virkum hætti að
stefnumótun og aðgerðum í baráttunni fyrir jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að fylgja
því eftir skal ASÍ:
- Taka virkan þátt í þróun lagasetninga er varða jafnrétti kvenna og karla og innleiðingu þeirra sem og jafnlaunastaðals á
vinnumarkaði.
- Vinna að framgangi jafnréttis kynjanna með virkri þátttöku á öllum sviðum samfélagsins sem og innan sinna vébanda.
- Vinna markvisst með aðildarsamtökum sínum að því að efla vitund og skilning á mikilvægi jafnréttis kvenna og karla.
Aðgerðaáætlun
Til þess að fylgja eftir þessum markmiðum skal ASÍ í samvinnu við aðildarfélög sín vinna að eftirtöldum verkefnum.
Liður 1:
- Vinna gegn launamun kynjanna með því að;
- stuðla að innleiðingu jafnlaunastaðals á vinnumarkaði
- taka virkan þátt í að afla stöðugt nýrra upplýsinga um laun kvenna og karla, vinna úr þeim og kynna
- taka þátt í undirbúningi gagnasöfnunar um launamun kynjanna með tillögum og athugasemdum til þeirra sem gera launakannanir
- taka virkan þátt í endurskoðun jafnréttislaga
- Vinna tölulegar upplýsingar um stöðu jafnréttismála innan sambandsins með því að;
- vinna áfram með kynjabókhald, efla og auka við þær upplýsingar sem þar eru greindar og lagðar fram.
Liður 2:
- Jafna stöðu kvenna og karla í stjórnum og áhrifastöðum á vinnumarkaði og innan verkalýðshreyfingarinnar með því
að;
- taka tillit til kynjasjónarmiða við val í nefndir og ráð þar sem hreyfingin skipar fulltrúa í
- byggja upp tengslanet kvenna sem eru talsmenn verkalýðshreyfingarinnar; kjörnir fulltrúar, starfsmenn, sérfræðingar, trúnaðarmenn og/eða
virkir félagsmenn
- stuðla að breytingum á hefðum hvað varðar tímasetningar funda og annarra félagslegra atburða þannig að markmiðum
samþættingar atvinnu- og fjölskyldulífs verði náð
- Stuðla að því að öll aðildarsamtök innan ASÍ setji sér og/eða fylgi eftir jafnréttisáætlun í samræmi
við jafnréttislög með því að;
- skipuleggja og fylgja eftir fræðslu um gerð slíkra áætlana þar sem fram koma m.a. ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundna
eða kynferðislega áreitni í öllu starfi verkalýðshreyfingarinnar
- Að samþætta kynjasjónarmið við kröfugerð og í kjarasamningaferli
Liður 3:
- Efla jafnréttisfræðslu hreyfingarinnar með því að;
- stuðla að fræðslu um jafnrétti kvenna og karla á vegum hreyfingarinnar
- kynna nýjar áherslur í samþættingu jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða
- fræða um ný ákvæði í lögum, reglugerðum og samþykktum sem geta haft áhrif á þróun og aðgerðir í
jafnréttismálum
Árangursmælingar
Þróa skal leiðir til að hægt sé að mæla með kerfisbundnum hætti árangur fræðslu, aðgerða,
jafnréttisáætlana og annarra verkefna sem fram koma í stefnu- og aðgerðaráætlun 2012-2016. Fyrir mitt ár 2013 skulu liggja fyrir hvernig haga
skuli mælingum til að meta árangur þessarar áætlunargerðar.