Hin árlega eins dags ferð fyrir aldraða Einingar-Iðjufélaga var farin í gær, 24. júní. Tæplega 100 manns lögðu af stað í tveimur rútum frá Alþýðuhúsinu á Akureyri kl. 9:00 í sól og blíðu. Að þessu sinni var farið austur í Bárðardal. Eftir stutt stop í Fosshól var ekið fram í Svartárkot. Þaðan var farið upp í Mývatnssveit og snæddur hádegisverður á Sel Hótel Mývatn.
Að hádegisverði loknum var farinn hringur í Mývatnssveit og svo ekið eins og leið lá að Þeystareykjum þar sem var stoppað og m.a. kíkt á mjög svo skemmtilegt listaverk, Römmuð sýn eftir Jón Grétar Ólafsson, en verkið mótar Ísland úr norðlensku stuðlabergi og er umlukið óreglulegum hraunhellum sem mynda tengingu við jarðhitasvæði og náttúru Þeistareykja.
Eftir gott stop var ekið til Húsavíkur þar sem ferðalangar höfðu frjálsan tíma í um klukkustund til að ganga um bæinn og skoða það sem fyrir augu bar í frábæru veðri.
Að lokum var farið til Akureyrar með kaffi-viðkomu, önnur rútan stoppaði í Dalakofanum og hin á Hótel Laugum. Leiðsögumenn voru þau Helga Sigurðardóttir og Óskar Þór Halldórsson og var í lokin klappað fyrir þeim og frábærum bílstjórum ferðarinnar. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið frábær í alla staði.