Launagreiðendur geta ekki lengur sótt um kennitölur fyrir erlenda ríkisborgara sem hjá þeim starfa beint til Þjóðskrár. Það eru breytingar á lögum nr. 140 frá 2019 sem hafa þetta í för með sér. Þetta kom fram í orðsendingu frá Ríkisskattstjóra til launagreiðenda í janúar.
„Samhliða skráningu í utangarðsskrá eru nú gefnar út kerfiskennitölur sem eru einkvæmt auðkenni fyrir einstaklinga sem gefnar eru út fyrir milligöngu opinberra aðila vegna einstaklinga sem ekki þurfa að uppfylla, eða uppfylla ekki, skilyrði til skráningar í þjóðskrá,“ segir í orðsendingunni.
Þar segir að Skatturinn muni eingöngu sækja um kerfiskennitölur fyrir þá EES/EFTA ríkisborgara sem eru í launuðu starfi hér á landi í allt að þrjá mánuði. Þeir sem hér dvelja lengur þurfa að snúa sér beint til Þjóðskrár, en aðrir snúa sér til Útlendingastofnunar.
Einstaklingur af EES/EFTA svæðinu sem óskar eftir kerfiskennitölu vegna launaðs starfs á Íslandi í styttri tíma en þrjá mánuði þarf að koma með útfyllta umsókn þar um í einhverja afgreiðslu Skattsins og hafa þá vegabréf eða ferðaskilríki meðferðis. Umsóknin þarf að vera undirrituð af bæði umsækjanda og launagreiðanda.
Umsóknareyðublað er að finna á vefsíðu Skattsins (rsk.is) undir Eyðublöð 2020 og er það númer RSK 3.30.