Vert er að benda á frétt í Akureyri vikublaði sem kom út í dag þar sem m.a. kemur fram að ekki væri lengur hægt að halda fram að Eyjafjörður væri láglaunasvæði heldur væru meðaltekjur á pari við landið. Þetta kom fram í fyrirlestri hjá Jóni Þorvaldi Heiðarssyni, hagfræðingi og kennara við HA, sem hann flutti í síðustu viku þar sem kynnt var ný skýrsla að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Þessi niðurstaða er í samræmi við kannanir sem Eining-Iðja hefur látið framkvæma fyrir sig undanfarin þrjú ár og borin saman við sambærilegar kannanir sem gerðar hafa verið hjá Flóabandalaginu (Reykjavík, Hafnarfjörður, Reykjanesbær) og hjá Afli á Austurlandi. Í haust verður gerð ný könnun og þá verður forvitnilegt að sjá niðurstöðuna. Ef skoðuð eru heildarlaun í þessum könnunum sést að þau eru hærri á Eyjafjarðarsvæðinu en í Reykjavík. Kannanir félagsins má finna hér.
Fréttina í heild má lesa á vef blaðsins og hér fyrir neðan.
Konur í Eyjafirði tvöfalt menntaðri en karlar
„Kreppunni er lokið í Eyjafirði og nú virðast hafa skapast skilyrði til að sækja fram, sérstaklega hjá fyrirtækjum. Við
spiluðum varnarleik eftir hrunið, en nú er kominn tími á sóknarleik.“
Hagfræðingurinn skoðaði gögn frá skattinum og Hagstofunni og fann út að ekki væri lengur hægt að halda fram að Eyjafjörður væri láglaunasvæði heldur væru meðaltekjur á pari við landið. Tekjuskattstofn hefði vaxið örugglega frá hruni en heildartekjur á einstakling væru 220.000-300.000 kr. að jafnaði á hvern einstakling á Eyjafjarðarsvæðinu, börn meðtalin. Hæstur tekjurnar eru í Dalvík og Fjallabyggð. Tekjur í eyfirskri sveit eru almennt lægri en á Akureyri. Ein stærsta fréttin er að sögn Jóns Þorvaldar að eigið fé fyrirtækja í Eyjafirði óx úr 90 milljörðum í 2008 í 135 milljónir árið 2012! „Þetta er eiginlega alveg lygilegt. Og við erum ekki bara að tala um sjávarútveg heldur eru öll fyrirtæki á uppleið.“
Fleiri áhugaverðar niðurstöður voru kynntar. Mun færri háskólamenntaðir eru að meðaltali búsettir í Eyjafirði en á landinu í heild. Þegar greint er eftir kyni kemur á daginn að háskólamenntun eyfirskra kvenna er að nálgast landsmeðaltal, en karlar eru langt fyrir neðan landsmeðaltal. „Það sem vekur mig mest til umhugsunar er þetta hutfall, fyrir hverjar tvær háskólamenntaðar konur er bara einn karl. Hver er skýringin?“ Spurði hagfræðingurinn.
Í umræðum um þetta kom fram að nærtækt væri að álykta að 80% nemenda við HA væru konur. Þar væri kenndar hefðbundnar „kvennagreinar“ s.s. hjúkrun og kennaranám. „Ef við ætlum að breyta þessu er fyrsta skrefið að bjóða upp á nám sem karlar sækja í, tölvunarfræðinám, verkfræði eða tæknifræði,“ sagði fundargestur.
Fram kom að ef svo færi sem horfði yrðu allir karlar í Eyjafirði senn undir stjórn háskólamenntaðra kvenna. Ef marka má hlekki kynjakerfisins og undirskipun kvenna verður þó að álykta að önnur framtíðarsýn sé möguleg. Að menntaðar konur þurfi að lúta stjórn ómenntaðra eyfirskra karla. Sú útkoma væri í takt við niðurstöður ýmissa alþjóðlegra rannsókna. Konur mennta sig meir. Karlar hafa völdin.