Nýlega afhenti Eining-Iðja Velferðarsjóðnum á Eyjafjarðarsvæðinu styrk að upphæð kr. 1.000.000. Félagið hefur í mörg ár styrkt Jólaaðstoðina, en það er samstarfverkefni Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins á Akureyri og hefur staðið yfir frá árinu 2012.
Markmið verkefnisins er að styðja efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu. Söfnunarfé er meðal annars notað til kaupa á gjafakortum sem einstaklingar geta keypt mat fyrir. Samtals fengu rúmlega 400 fjölskyldur og einstaklingar aðstoð á síðasta ári, sem var aukning um 25% á milli ára. Mörg heimili á Eyjafjarðarsvæðinu eru enn illa stödd fjárhagslega og þurfa á aðstoð að halda.
Rétt er að vekja athygli á því að þessir aðilar aðstoða fólk um allan Eyjafjörð, frá Fjallabyggð að Grenivík.
Samstarfið útvíkkað
Fyrr á árinu var samstarf þessara fjögurra aðila útvíkkað. Auk jólaaðstoðar hafa samtökin nú samstarf á ársgrundvelli um stuðning við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu svo söfnunarfé og framlög til málaflokksins nýtist sem best. Nafn samstarfsins breyttist og er nú Velferðarsjóður á Eyjafjarðarsvæðinu. Eins og fram kemur hér að framan fjölgaði umsóknum um aðstoð töluvert síðastliðið ár og voru umsóknir í heildina um 400 talsins. Þetta er mesti fjöldi umsókna sem borist hefur síðan samstarfið hófst. Þrátt fyrir mikla fjölgun á milli ára kom sjóður jólaaðstoðarinnar vel út eftir árið 2020. Stuðningur frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum hefur aldrei verið meiri og því var hægt að styðja veglega við þau heimili sem þurftu á að halda. Í desember keypti sjóðurinn inneignarkort í matvöruverslanir fyrir kr. 15,75 milljónir en ásamt kortunum úthlutaði sjóðurinn matvöru, gjafabréfum frá styrktaraðilum, inneignarkortum í verslun Rauða krossins, vörum úr verslun Hertex og jólagjöfum handa börnum.
Þau sem vilja styrkja jólaaðstoð Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis er bent á söfnunarreikninginn
0302-13-175063 kt. 460577-0209.