Nýlega ákvað stjórn félagsins að veita Jólaaðstoðinni í Eyjafirði styrk að upphæð kr. 1.000.000. Jólaaðstoðin er samstarfverkefni Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins á Akureyri. Markmið verkefnisins er að styðja efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu. Söfnunarfé er meðal annars notað til kaupa á gjafakortum sem einstaklingar geta keypt mat fyrir. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu má gera ráð fyrir fleiri umsóknum í ár en undanfarin ár.
Félagið hefur í mörg ár styrkt Jólaaðstoðina. Vegna stöðunnar í samfélaginu núna ákvað stjórn félagsins að bæta aðeins í og styrkja verkefnið um eina milljón króna.
Rétt er að vekja athygli á því að þessir aðilar aðstoða fólk um allan Eyjafjörð, frá Fjallabyggð að Grenivík.