Stjórn Stapa lífeyrissjóðs er skipuð átta mönnum. Fjórir eru kosnir af launamönnum og fjórir af vinnuveitendum. Kosning launamanna fer fram á fulltrúaráðsfundi sjóðsins, en kjör fulltrúa vinnuveitenda fer fram hjá Samtökum atvinnulífsins. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og er kosið um helming stjórnar árlega. Fulltrúar launagreiðenda og launamanna skiptast árlega á um að fara með formennsku í stjórn.
Tryggvi Jóhannsson, formaður Matvæla- og þjónustudeildar Einingar-Iðju og þar af leiðandi stjórnarmaður í aðalstjórn félagsins, hefur setið í stjórn Stapa sl. sex ár og gegnir nú stöðu formanns stjórnar sjóðsins. Í nýjasta blaði félagsins sem kom út í gær má finna eftirfarandi viðtal við Tryggva, þar sem tíðindamaður blaðsins settist niður með honum nýlega og forvitnaðist um tilurð og veru hans í stjórn Stapa.
Hvernig stóð á því að þú endaðir í stjórn Stapa á sínum tíma?
Ég var á fundi í trúnaðarráði Einingar-Iðju og þar talaði Bjössi formaður um að það vantaði stjórnarmann í Stapa og helst konu vegna kynjahlutfalla í stjórninni. Ég hugsaði málið í þrjá daga, hringdi þá í hann og byrjaði samtalið „ég veit að þú varst að biðja um konu,“ en bætti við að ef málin myndu atvikast þannig þá hefði ég áhuga á stjórnarsetu. Svo endaði þetta þannig að það urðu einhverjar hrókeringar á milli félaga og mér er stillt upp af Einingu-Iðju og kosinn þar og svo aftur á ársfundi sjóðsins. Ég sat reyndar eitt ár sem varamaður áður en ég varð aðalmaður og fór í gegnum hæfismatið hjá FME á því ári. Mér skilst reyndar að þetta hafi verið mjög sögufrækt ár hjá Lífeyrissjóði Norðurlands og Stapa því ég sat tvo fundi sem aðalmaður í fjarveru Bjössa. Það hafði aldrei gerst áður að hann gæti ekki mætt á fund, hvað þá tvo.
Þegar nýir aðilar taka sæti í stjórnum íslenskra lífeyrissjóða er hæfi þeirra til þess að gegna stjórnarstörfunum alltaf metið sérstaklega af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (FME). Hvernig var að fara í gegnum hæfismatið?
Áður en ég fór í hæfismatið þá fór ég á undirbúningsnámskeið hjá Félagsmálaskóla Alþýðu og fékk þar afhenta um 30 cm þykka möppu sem ég lagði varla frá mér í tvo mánuði þar á eftir. Í möppunni var m.a. mjög mikið af lögum og reglugerðum, leiðbeinandi tilmælum og endurskoðunar stöðlum svo eitthvað sé nefnt. Á þessum tíma þurfti ég nokkrum sinnum að vera á fundum fyrir sunnan fyrir félagið og auðvitað var mappan alltaf með. Reglan var að fara í gegnum eina reglugerð á koddanum á kvöldin. Ég var viss um að lykillinn að fara í gegnum hæfismatið væri að vera mjög vel undirbúinn og því lagði ég mikið á mig áður en ég mætti í sjálft hæfismatið.
Hvernig fór hæfismatið fram?
Fyrir það fyrsta þá komast víst ekki allir í þetta hæfismat þar sem FME er með ákveðinn staðal sem þarf að standast. Ég stóðst það og þurfti að mæta hjá Fjármálaeftirlitinu í viðtal, kom bara inn í lítið herbergi þar sem sátu við borð lögfræðingur, endurskoðandi og siðfræðingur. Ég mátti hafa möppuna mína góðu með mér sem var ágætt því ég var búinn að heyra allskyns sögur af þessu fræga prófi sem ég var að mæta í. Að lokum gekk ég svo út úr þessu litla herbergi með þá tilfinningu að þetta hefði ekki verið próf, meira svona spjall. Lögfræðingurinn opnaði samtalið og var með fjölmargar spurningar um lífeyrissjóðslögin og slíkt og svo leiðist þetta bara áfram í spjalli. Hann sat með blöð fyrir framan sig og hakaði í box eftir því sem hann heyrði hvað ég var búinn að lesa og kynna mér. Þetta var ekki röð spurninga, heldur bara svona spjall. Eftir að við vorum búnir að tala saman í töluverðan tíma þá tók endurskoðandinn við og fór á sama hátt yfir endurskoðunar staðlana og slíkt. Siðfræðingurinn, sem sat ekki á móti mér eins og hinir tveir heldur svona meira til hliðar, bar bara upp eina spurningu, hann var meira að fylgjast með og skrifaði mjög mikið niður. Spurningin sem kom frá honum var: „Ef félagsmenn í Einingu-Iðju birta áskorun á þig í einhverju máli í staðarmiðlunum um að þú eigir að kjósa á ákveðin hátt, ætlar þú að fara eftir því? Ég sagði „nei, ég kýs bara eins og lögin segja og út frá minni samvisku. Ég verð svo bara að eiga við félagsmenn Einingar-Iðju við næsta endurkjör.“
Viðtalið í heild tók um fjóra klukkutíma. Ég vissi fyrirfram að þó maður sé ekki samþykktur strax þá fær maður annað viðtal og var með þá hugsun allan tímann á bak við eyrað í viðtalinu. Hugsaði ég hef alltaf tækifæri til að koma aftur, en þurfti þess ekki. Ég fékk staðfestingu frá þeim að ég væri hæfur.
Ég man þegar Fjármálaeftirlitið jók kröfur um hæfi stjórnarmanna á sínum tíma að þá óttuðust margir að eingöngu sérfræðingar ættu eftir að skipa stjórnir lífeyrissjóða í framtíðinni, að rödd hins almenna launamanns fengi minna svigrúm í stjórnunum. Það er áhyggjuefni ef stjórnir verði einsleitar, að það verði meira um sérfræðinga, lögfræðinga, hagfræðinga og annað háskólamenntað fólk þarna inni og raddir almenna launamannsins fái minna svigrúm innan stjórnanna. Fulltrúar launagreiðanda eru oft meira menntaðir en fulltrúar launþega en ég tel það mun gáfulegra að vera með þverfaglegar stjórnir, eins og raunin er víða í dag, fremur en að hver einasti stjórnarmaður þurfi að vera sérfræðingur á öllum sviðum.
Hvernig var að mæta á fyrsta fund í stjórn Stapa, þar sem væntanlega er verið að fjalla um ansi háar upphæðir oft á tíðum? Svona beint af gólfinu ef þannig má komast að orði.
Allir stjórnarmenn eru með aðgang að innri vef Stapa, en þar koma inn öll gögn fyrir fundi stjórnar. Þegar ég fór þar inn fyrir fyrsta fund og sá um 300 blaðsíður af gögnum sem þurfti að fara í gegnum þá verð ég að viðurkenna að ég hváði aðeins. Undirbúningur fyrir venjulegan stjórnarfund tekur að lágmarki fjóra til fimm tíma. Á sjálfum fundinum, þeim fyrsta, eftir að fjárfestingarráðið var búið að fara yfir ýmis mál, þá lá fyrir tillaga um tólfhundruð og fimmtíu milljónir í fjárfestingu. Ég sagði bara aftur “úff,“ milljarður, bara já eða nei. Ég viðurkenni alveg að það tók nokkra fundi að líða vel með að vera að taka ákvarðanir með svona stórar upphæðir. Það er kannski asnalegt að segja það, en svo venst þetta að mörgu leiti.
Stjórnarmenn þurfa að taka ákvarðanir með sjóðinn í huga, þá þarf ég stundum að kyngja verkalýðshugsuninni og horfa á heildarmyndina. Það getur alveg tekið á en ef fjárfestingin er góð fyrir sjóðinn þá má ekki láta umtalið í þjóðfélaginu smita sig. Þá er einmitt gott að rifja spurninguna sem siðfræðingurinn kom með í viðtalinu hjá FME.
Nú mega stjórnarmenn lífeyrissjóða sitja að hámarki átta ár í senn í stjórninni, eða fjögur kjörtímabil. Hvað finnst þér um þau tímamörk?
Það er liggur mjög mikil vinna að baki fyrir að fá samþykki að mega sitja í stjórn lífeyrissjóða. Að minnsta kosti hvað mig varðar og ég veit að það á við mjög marga. Það tekur líka langan tíma að venjast þessu og setja sig inn í starfsemina. Ég viðurkenni að í upphafi þá hafði ég þá skoðun að átta ár væru passlegur tími. Núna, reynslunni ríkari, veit ég betur því fyrstu tvö árin fara bara í að venjast þessu og læra og í raun skilja kerfið og réttindakerfið. Þú ert í raun alltaf á uppleið og þegar þú ert orðinn „góður“ stjórnarmaður þá ertu farinn að nálgast endann. Í dag er ég kominn á þá skoðun að sennilega væri æskilegra að stjórnarmenn fengju að sitja tíu, jafnvel 12 ár, til að bjóða ekki upp á þá hættu að starfsmenn sjóðanna yrðu of allsráðandi. Þeir eru yfirleitt með lengri starfsaldur en margir stjórnarmenn og geta því orðið svolítið ráðandi í ákvörðunum ef stjórnarmenn eru ekki komnir nógu vel inn í málin til að standa á móti. Ég held líka að þó tímabilið verði lengt þá verði ekki í mörgum tilfellum sem stjórnarmenn sitji allan þann tíma. Það verður alltaf þessi náttúrulega endurnýjun í stjórninni, eins og raunin hefur til dæmis verið í stjórn Stapa. Menn eru að skipta um vinnu sem getur þýtt nýtt stéttarfélag og nýr lífeyrissjóður, flytja búferlum og slíkt og víkja þá eðlilega úr stjórninni. Ég er viss um að slík breyting verður sjóðsfélögum til framdráttar, það að vera með sterkari stjórnarmenn.“
Gríðarlegur lærdómur
Það að sitja í stjórn Stapa hefur verið gríðarlegur lærdómur og ég er enn að læra því ég er búinn að fara þá leið að vera varamaður, aðalmaður, sitja tvö ár í endurskoðunarnefnd, varaformaður og er nú formaður stjórnar. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt með hverju skrefi sem tekið er. Það er kannski skrítið að segja frá því en nýlega var ég á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða og athyglisverðasta erindið þar var frá tryggingastærðfræðingnum. Þegar þú ert kominn á þann stað þá er greinilegt að þú hefur mjög gaman að þessu. Þetta hefur alveg verið erfitt á köflum, komið upp erfið mál sem leiðinlegt hefur verið að eiga við. Ég kom líka inn í stjórnina rétt eftir hrun og mikið af dómsmálum og hrunmálum í gangi en menn læra að lifa með slíku. Heilt yfir hefur þetta verið mjög gaman, þegar þekkingin verður meiri þá verður þetta meira gaman. Þó að ég þurfi að víkja eftir tvö ár þá er ég galopinn fyrir því að fara inn aftur ef ég yrði beðinn þegar það mætti. Þ.e. að þremur árum liðnum sem þýða í raun fjögur ár.
Það er gaman að hugsa til þess að þegar ég kem inn í stjórn Stapa þá var stærð hans um 150-60 milljarðar. Núna, sex árum seinna, er hann orðinn 313 milljarðar í dag. Sjóðurinn hefur tvöfaldast að stærð á þessum tíma.
„Lífeyrismál skipta alveg gríðarlega miklu máli og í mínum huga eru það tvö atriði sem tróna á toppnum. Fyrir það fyrsta er það samtryggingin, en hana verðum við að verja og passa eins og hægt er. Svo eigum við að hvetja unga fólkið okkar til að vera með séreignasparnað. Þau þurfa að vanda þar valið og halda sig á sama stað. Ekki láta einhverja sölumenn gabba sig með gylliboðum, flakka á milli fyrirtækja og lenda í því að vera endalaust að borga kostnað í stað þessa að byggja upp sparnað. Þetta samspil mun alltaf skila okkur til framtíðar og því hvet ég ungt fólk til að fara sem fyrst í séreignarsparnað,“ sagði Tryggvi að lokum.