Um síðustu helgi héldu lögreglumenn hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra uppi sérstöku eftirliti með skemmtistöðum á Akureyri, bæði aðfaranótt laugardags og aðfaranótt sunnudags. Áhersla var lögð á að skoða hvort ekki væru til staðar gild rekstrarleyfi, dyraverðir með réttindi og að aldur starfsmanna við áfengissölu í lagi. Einnig var kannað hvort gestafjöldi væri innan leyfilegra marka og hvort aldurstakmörk og opnunartími væri virtur.
Ásgrímur og Þorsteinn, starfsmenn félagsins og eftirlitsfulltrúar með vinnustaðaskilríkjum voru með í för og könnuðu hvort starfsmenn viðkomandi skemmtistaða væru með vinnustaðaskírteini, en skv. lögum nr. 42/2010 er eftirlitsfulltrúum heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda, sem undir lögin falla, til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.
Nánari upplýsingar um vinnustaðaskírteini má finna á www.skirteini.is