Dyravarðanámskeiði lokið

Nýútskrifaðir dyraverðir
Nýútskrifaðir dyraverðir

Dyravarðanámskeið sem staðið hefur undanfarnar tvær vikur lauk í gær. 13 þátttakendur tóku þátt í námskeiðinu, en frá því árið 2000 hefur Eining-Iðja, í samstarfi við lögregluna, staðið fyrir slíkum námskeiðum. Eitt af skilyrðum fyrir skemmtanaleyfi er að þeir sem starfa við dyravörslu hafi lokið slíku námskeiði.

Námskeiðið var bæði bóklegt og verklegt. Bóklegu tímarnir fóru fram í Einingar-Iðju-salnum í Alþýðuhúsinu en verklegar æfingar fóru fram á slökkvistöðinni, í húsnæði Rauða krossins og í sal Fenris. Farið var yfir fjölmarga þætti sem fylgja starfi dyravarða. 

Agnes Björk Blöndal, löglærður fulltrúi lögreglustjóra, fjallaði um reglugerð um löggæslu á skemmtunum og borgaralega handtöku. Sigurður Eiríksson, fulltrúi sýslumanns fjallaði um áfengislög, reglugerð og leyfi vegna áfengisveitinga og fleira.Kári Erlingsson, rannsóknarlögreglumaður var með fræðslu um fíkniefni, einnig fjallaði hann um samskipti dyravarða og lögreglu og skoðun skilríkja. Jón Ívar Rafnsson, frá Vátryggingarfélagi Íslands, fór yfir og útskýrði það helsta í sambandi við tryggingar í starfi. Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar-Iðju, fjallaði um réttindi og skyldur starfsmanna sem og vinnuveitenda. Gauti Grétarsson kenndi slysahjálp, Jóhann Þór Jónsson, verkefnastjóri við eldvarnaeftirlit fór yfir brunavarnir og Ingþór Örn Valdimarsson fór í gegnum ferlið hvernig eigi að bera sig við að handtaka menn.