"Á þingi ASÍ í október 2012 var samþykkt svohljóðandi ályktun um Evrópumál með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur:
„40. þing Alþýðusambands Íslands telur mikilvægt að ljúka viðræðum Íslands og ESB svo fljótt sem kostur er með það að markmiði að ná eins hagstæðum samningum og unnt er. Það verði síðan íslenska þjóðin sem taki afstöðu til samningsniðurstöðunnar og aðildar að ESB í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
ASÍ hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hagsmunum Íslands og íslensks launafólks sé best borgið með aðild að ESB, en hefur skýra sýn á hvaða markmiðum þurfi að ná í aðildarviðræðunum til þess að hægt verði að leggja endanlegt mat á kosti og galla fullrar aðildar.“
Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi gengur þvert á vilja fulltrúa þorra félagsmanna aðildarsamtaka á þingi ASÍ. Um leið er með þingsályktuninni, yrði hún samþykkt, tekinn út eini raunhæfi kosturinn til að taka hér upp gjaldmiðil á næstu árum sem komið getur landinu úr viðjum gjaldeyrishafta og lagt grunninn að stöðugleika og nýsköpun í atvinnulífinu til hagsbótar fyrir launafólk og allan almenning. Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að ekki liggur fyrir nein sú áætlun eða stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar í gengis- og peningamálum sem lagt geti slíkan grunn að stöðugleika. Það er mat miðstjórnar ASÍ að með þessu sé ríkisstjórnin að setja markmið aðila vinnumarkaðarins um nýjan grunn að gerð kjarasamninga í uppnám.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar á ríkisstjórnina að draga þingsályktunartillöguna til baka og efna þess í stað til málefnalegrar umræðu um raunverulega valkosti til framtíðar í gengis- og peningamálum. Stutt er í að Alþjóðamálastofnun skili aðilum vinnumarkaðarins skýrslu um stöðu aðildarviðræðnanna við ESB sem væntanlega leggur mikilvægar upplýsingar og sjónarmið inn í þessa umræðu. Verði ríkisstjórnin ekki við áskorun ASÍ um að draga þingsályktunartillöguna til baka þá hvetur miðstjórn ASÍ þingmenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og leyfa þjóðinni þess í stað að taka afstöðu til áframhaldandi viðræðna við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu."