Vinnumálastofnun mun greiða út desemberuppbót til atvinnuleitenda í
dag, 5. desember, í samræmi við reglugerð sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gefið út. Á heimasíðu
Vinumálastofnunar kemur fram að rétt á desemberuppbót eiga þeir
atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á
tímabilinu 20. nóvember til 3. desember.
Skilyrði og útreikningur á rétti til greiðslunnar verður með sama hætti og undanfarin ár. Tekið er
mið af bótahlutfalli og fjölda mánaða á atvinnuleysisbótum. Full desemberuppbót
er 53.647 krónur en greiðsla til hvers og eins reiknast í hlutfalli við rétt hans til
atvinnuleysisbóta á árinu.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar.