Verðlageftirlitið hefur tekið saman þróun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði í 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá árunum 2013-2019. Úttektin sýnir að fasteignagjöld hafa í mörgum tilfellum hækkað mikið á síðustu sex árum og í sumum tilfellum hafa þau meira en tvöfaldast. Mestar hækkanir eru á fasteignasköttum, lóðaleigu og sorphirðugjöldum en miklar hækkanir má finna í öllum gjaldaflokkum.
Fasteigna- og lóðamat hefur hækkað mikið um land allt á síðustu árum en fasteignamat (lóðamat í tilfelli lóðaleigu) ásamt álagningarhlutfalli sveitarfélaganna er í flestum tilfellum gjaldstofn fyrir innheimtu fasteignagjalda. Álagningarhlutfall sveitarfélaganna á fasteigna- og lóðamat stýrir endanlegum fasteignagjöldum sem innheimt eru. Þar sem þróun fasteignaverðs hefur mikil áhrif á endanlega innheimtu geta sveitarfélögin minnkað áhrif hækkana á fasteigna- og lóðamati með því að lækka álagningarhlutföll. Einhver sveitarfélög hafa lækkað álagningarhlutföll til að stemma stigu við hækkun á fasteignamati en slíkar mótvægisaðgerðir hafa ekki alltaf verið nægilega miklar til að draga úr hækkunum fasteignagjalda. Þá hafa ekki öll sveitarfélög lækkað álagningarhlutfall sitt og í einhverjum tilfellum hefur það hækkað.
Í mörgum tilfellum hafa fasteignagjöld hækkað um eða yfir 50% og í þó nokkrum tilfellum um 70%-100%. Sem dæmi um hækkanir á fasteignagjöldum á síðustu sex árum má nefna að fasteignaskattur í fjölbýli hækkar mest í Keflavík, Reykjanesbæ um 136%, hækkun á fráveitugjöldum í fjölbýli er mest 128,4% hjá Seltjarnarneskaupstað og hækkun á lóðaleigu í fjölbýli 122,4% í Keflavík, Reykjanesbæ. Vatnsgjald hefur á tímabilinu hækkað mest í fjölbýli á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg um 69,5% og sorphirðugjald um 114,2% hjá Seltjarnarnesbæ.
Sveitarfélögin ekki stemmt stigu við hækkunum á fasteigna- og lóðamati
Undanfarið hefur mikið verið rætt um hækkanir á fasteignagjöldum. Einna helst hefur umræðan snúið að fasteignaskatti sem er reiknaður út frá fasteignamati en hann hefur hækkað mikið samhliða hækkun fasteignaverðs síðustu ár. Hækkandi fasteigna- og lóðamat hefur þó áhrif á fleiri gjöld og hafa gjöld eins og lóðaleiga, fráveitugjöld og vatnsgjöld í mörgum tilfellum hækkað mikið. Sömuleiðis hafa soprhirðugjöld hækkað töluvert þrátt fyrir að þau séu ekki reiknuð út frá fasteigna- og lóðamati.
Í mörgum tilfellum hefur álagningarhlutfall sveitarfélaganna staðið í stað eða lækkað. Gjaldstofn fasteignagjaldanna, þ.e. fasteigna- og lóðamat hefur á móti hækkað umtalsvert. Einhver sveitarfélög hafa lækkað álagningarhlutföll á móti til að minnka áhrif af hækkandi fasteigna- og lóðamati. Þrátt fyrir það hafa fasteignagjöld hækkað mjög mikið á síðustu árum og hefur kostnaður margra fasteignaeigenda hækkað verulega. Misjafnt er hversu miklar hækkanirnar eru en í öllum flokkum má finna miklar hækkanir. Algengt er að hækkanir séu miklar á fasteignaskatti, lóðaleigu og sorphirðugjöldum og oft má sjá yfir 50% hækkun á þeim gjöldum. Algengara er að hækkanir séu á bilinu 30-50% á vatnsgjöldum og fráveitugjöldum en í þónokkrum tilfellum hafa álögð gjöld hækkað á bilinu 50-70% og í einstaka tilffellum hækkað umfram það og jafnvel tvöfaldast.
Verðlagseftirlitið hefur tekið saman þróun á fasteignagjöldum í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins sveitarfélögunum á árunum 2013-2019. Úttektin sýnir breytingar á innheimtum fasteignagjöldum milli ára, bæði breytingar á álagningu sveitarfélaganna og samtals breytingu á innheimtum fasteignagjöldum þar sem tillit er tekið til breytinga á fasteigna- og lóðamati frá árinu 2013.
Í flestum tilfellum eru fasteignagjöld innheimt sem hlutfall af fasteignamati eða lóðamati en eru í einhverjum tilfellum innheimt sem fast gjald og fermetragjald. Sorphirðugjöld eru alltaf innheimt sem fast gjald. Hækkanir á fasteigna- og lóðamati hafa því áhrif á upphæð innheimtra fasteignagjalda. Hversu hátt álagningarhlutfallið er hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig er síðan sveitarfélaganna að ákveða. Til að átta sig á hvernig fasteignagjöld breytast milli ára er því nauðsynlegt að skoða samhliða álagningarhlutafall sveitarfélaganna og breytingar á fasteignamati íbúðarhúsnæðis í viðkomandi sveitarfélagi. Fasteignagjöld samanstanda af fasteignasköttum, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi, lóðaleigu og sorphirðugjöldum.
Til að lesendur átti sig betur á raunbreytingu á gjöldum er litið á fleiri en eitt hverfi í stærri sveitarfélögum þegar innheimt fasteignagjöld eru skoðuð.
136% hækkun á fasteignaskatti í Reykjanesbæ
Á tímabilinu 2013-2019 lækkaði álagningarhlutfall hjá 10 af 15 sveitarfélögum á tímabilinu, stóð í stað hjá þremur sveitarfélögum og hækkaði hjá tveimur sveitarfélögum. Þrátt fyrir það hefur innheimtur fasteignaskattur í flestum tilfellum hækkað mikið síðan árið 2014.
Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá að innheimtur fasteignaskattur hækkaði hjá 14 af 15 sveitarfélögum á tímabilinu og nemur hækkunin frá 9,2% í sérbýli í Vestmannaeyjum þar sem hún er minnst upp í 136% í fjölbýli í Keflavík, Reykjanesbæ þar sem hún er mest.
Næst mest hækkar innheimtur fasteignaskattur í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ, 131,2% en þar á eftir kemur Reykjavíkurborg með 65,7 % hækkun í fjölbýli í Laugarneshverfi/Vogum og 65% hækkanir í Seljahverfi. Minnstar hækkanir í fjölbýli eru hjá Vestmannaeyjabæ, 13,3%.
Í sérbýli eru mestar hækkanir í Keflavík, Reykjanesbæ, 124,1% og næst mestar í Njarðvík, Reykjanesbæ, 121,7%. Þar á eftir kemur Fjarðabyggð með 71,7% hækkun. Minnstar hækkanir eru í sérbýli hjá Vestmannaeyjabæ, 9,2%.
Lóðaleiga hækkað yfir 50% í flestum tilfellum
Lóðaleiga hækkaði sömuleiðis mikið á tímabilinu hjá flestum sveitarfélögum en þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á lóðamati má sjá að innheimt lóðaleiga hækkar í flestum tilfellum yfir 50% eða í 14 tilvikum af 21.
Innheimt lóðaleiga hækkar mest í fjölbýli í Keflavík, Reykjanesbæ um 122,2% og Njarðvík, Reykjanesbæ um 115,1%. Þar á eftir kemur 82,8% hækkun á lóðaleigu í fjölbýli í Glerárhverfi Akureyri, 80,3% hækkun í Efri brekku, Akureyri og 78,6% hækkun á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg. Minnstu hækkun á innheimtri lóðaleigu í fjölbýli má síðan finna í Austurbæ, Linda- og Salahverfi í Kópavogi þar sem hún hækkaði um 10% en í Kópavogi er lóðaleigan ekki háð lóðamati heldur föst krónutala á fermetra. Eina dæmið um lækkun á innheimtri lóðaleigu má finna á Akranesi en þar lækkar hún um 33%.
Í sérbýli má einnig finna mestu hækkanir á lóðaleigu í Keflavík, Reykjanesbæ, 106,3% en miklar hækkanir er einnig að finna á Reyðarfirði Fjarðarbyggð, 99,9%, á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg 75,2% og í Laugarneshverfi Reykjavík, 74,2%. Minnsta hækkunin er í Kópavogi, Austurbæ og Sala- og Lindahverfi, 10% og mestu og einu lækkunina á lóðaleigu í sérbýli er að finna hjá Akraneskaupstað, -34,2%
Álagningarhlutfall vegna lóðaleigu stóð í stað hjá flestum sveitarfélögunumá tímabilinu eða í 10 tilfellum af 15, lækkaði í þremur og hækkaði í tveimur tilfellum.
128% hækkun á fráveitugjöldum á Seltjarnarnesi
Í flestum tilfellum er fráveitugjald innheimt sem hlutfall af fasteignamati en í einhverjum tilfellum sem fast gjald auk fermetragjalds. Innheimt fráveitugjöld í fjölbýli hækkuðu mest hjá Seltjarnarneskaupstað um 128,2%, næst mest í Keflavík, Reykjanesbæ um 74% og Njarðvík um 70%. Minnst er hækkunin 8% hjá Kópavogsbæ og næst minnst 10% hjá Fjarðabyggð.
Innheimt fráveitugjöld í sérbýli hækka sömuleiðis mest hjá Seltjarnarnesbæ um 92% og næst mest um 65% í Keflavík, Reykjanesbær og um 63% í Njarðvík, Reykjanesbæ. Flest sveitarfélögin lækkuðu álagningarhlutfall sitt á þessu 6 ára tímabili eða 8 af 15, hjá 4 sveitarfélögum stóð álagningarhlutfall í stað og hækkaði hjá fjórum, m.a. hjá Seltjarnarnesi en hækkunin þar skýrist því bæði af þróun fasteignamats og hækkuðu álagningarhlutfalli.
Mestar hækkanir á vatnsgjöldum hjá Sveitarfélaginu Árborg
Í flestum tilfellum eru vatnsgjöld reiknuð sem hlutfall af fasteignamati en í sumum sveitarfélögum eru þau reiknuð sem fast gjald auk fermetra gjalds. Eftir að tekið hefur verið tillit til breytinga á fasteignamati má sjá að innheimt vatnsgjöld hækka mest í fjölbýli á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg um 69,5% og næst mest á Sauðárkróki, Sveitarfélaginu Skagafirði um 49,6%%. Þar á eftir koma Seltjarnarnesbær og Garðabær með 49,3% hækkun. Í fjölbýli lækkaði vatnsgjald mest á tímabilinu í Keflavík, Reykjanesbæ um 15,2% og næst mest hjá Vestmanneyjabæ um 11%.
Í sérbýli hækka gjöldin einnig mest á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg um 64,5%. Mestu lækkun á vatnsgjöldum í sérbýli er að finna í Keflavík, Reykjanesbæ, -24,5% og næst mestu lækkunina í Linda- og Salahverfi, Kópavogi, -21,4%.
Flest sveitarfélögin sem til skoðunar eru lækkuðu álagningarhlutfall vatnsgjalds á tímabilinu frá 2014-2019, eða í 9 af 15. Í þremur tilfellum hækkaði álagningarhlutfallið og í þremur tilfellum stóð það í stað.
114% hækkun á sorphirðugjöldum á Seltjarnarnesi
Sorphirðugjöld eru innheimt sem föst krónutala á hverja íbúð eða fjölda tunna við hús og hefur fasteigna- og lóðamat þar engin áhrif á. Frá árinu 2014 hafa sorphirðugjöld samt sem áður hækkað hjá öllum sveitarfélögum og í mörgum tilfellum mikið. Mest hafa gjöldin hækkað hjá Seltjarnarnesbæ um 114,2% og næst mest hjá Sveitarfélaginu Árborg um 84,5%. Vestmanneyjabær kemur þar á eftir með 75,4% hækkun og Kópavogsbær með 75,2% hækkun. Minnst hækkuðu sorphirðugjöldin hjá Reykjanesbæ um 19%, Akraneskaupstað um 20,2% og Ísafjarðarbæ um 21,9%.
Um úttektina:
Sérstakir útreikningar
Í þeim tilfellum þar sem aðferð við gjaldheimtu hefur breyst milli ára eru fasteignagjöld reiknuð út frá meðalfasteignamati fyrir ákveðna stærð af húsnæði í tilteknu hverfi/bæjarfélagi. Miðað er við 100 fm fjölbýli og 150 fm sérbýli. Þannig fæst prósentubreyting milli ára.
Þau tilvik sem þetta á við um:
Reykjanes: Breyting á vatnsgjaldi frá árunum 2017-2018.
Akureyri: Breyting á gjaldheimtu af fráveitugjöldum á árunum 2014-2015.