Búið að skrifa undir nýjan samning

Fyrr í dag var skrifað undir nýjan samning við Samtök atvinnulífsins, en hann er byggður á sáttatillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram til að reyna að leysa deiluna. Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, sagði er hann var nýlentur á Akureyri að um væri að ræða viðauka við samninginn sem felldur var um daginn í atkvæðagreiðslu hjá félaginu.

„Það sem kemur nú til viðbótar samningnum sem felldur var í janúar er að orlofs- og desemberuppbætur hækka samtals um 32.300 krónur frá gildandi kjarasamningi. Orlofsuppbótin fer úr 28.700 krónum í 39.500 og desemberuppbótin fer úr 52.100 krónum í 73.600. Samningurinn gildir frá 1. febrúar sl., en það verður 14.600 króna eingreiðsla vegna janúarmánaðar miðað við fullt starf og að viðkomandi hafi verið í vinnu 1. febrúar. Við þurfum að tilkynna ríkissáttasemjara um úrslit atkvæðagreiðslu félagsins fyrir klukkan 12 þann 7. mars,“ sagði Björn.

Búið er að boða samninganefnd félagsins til fundar næsta mánudag þar sem samningurinn verður kynntur og ákvörðun tekin um atkvæðagreiðslu. „Við munum svo kynna samninginn fyrir félagsmönnum í næstu viku.“