Konur lögðu niður vinnu kl. 14:55 í gær, miðvikudaginn 24. október, til að mótmæla kjaramisrétti, ofbeldi og áreitni á vinnustaði. Kjörorð kvennafrísins í ár voru: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.
Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55, eða á þeirri mínútu sem þær hætta að fá greitt fyrir vinnu sína. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum þegar 5 klukkustundir og 55 mínútur voru liðnar af vinnudeginum í gær, miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9 til 17. Daglegum vinnuskyldum kvenna var því lokið klukkan 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár!
Þetta var í sjötta sinn sem konur á Íslandi lögðu niður vinnu til að mótmæla kynbundnu misrétti. Konur gengu fyrst út 1975, svo 1985, 2005, 2010 og 2016. Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og baráttu kvenna fyrir jöfnum kjörum höfum við ekki enn náð jafnrétti á Íslandi.
Baráttufundir voru skipulagðir á í það minnsta 16 stöðum á landinu, þar á meðal á Ráðhústorginu á Akureyri og í Ungó á Dalvík. Mjög góð mæting var á báða þessa staði þar sem fram fór dagskrá í tilefni dagsins.
Á Akureyri stýrði Anna Soffía Víkingsdóttir fundinum og las einnig upp í lok hans yfirlýsingu samstöðufunda kvenna, 24. október 2018. Fjórar konur úr heimabyggð fluttu ávörp, þær Þórhalla Þórhallsdóttir, Arnbjörg Jónsdóttir, Serena Pedrana og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Þá flutti Kvennakór Akureyrar tvö lög, Ekkert mál og Áfram stelpur.
Á Dalvík ávarpaði Björk Hólm samkomuna og las upp yfirlýsingu kvennafrídagsins. Að því loknu tóku þrjár kjarnakonur úr heimabyggð til máls, þær Sigríður Hafstað, Katrín Sif Ingvarsdóttir og Lenka Uhrova, en Sigríður Hafstað frá Tjörn las ræðu sem hún flutti á Akureyri 1975 þar sem hún var fulltrúi kvenna í sveit þegar fyrsti kvennafrídagurinn fór fram. Kvennakórinn Salka lokaði svo dagskránni með laginu Áfram stelpur!
Á samstöðufundunum um land allt voru lesnar upp yfirlýsing kvenna á Íslandi á kvennafrídegi 2018, sem krafðist þess að grundvallarmannréttindi allra væru virt á Íslandi, styttri vinnuviku, lengra fæðingarorlofs og öruggrar dagvistunar, aðgerða til að auka hlut kvenna í áhrifa- og valdastöðum, að kvennastörf séu metin að verðleikum bæði í launum og virðingu, að stjórnvöld setji kynjajafnrétti og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi í forgang og sýni stórhug í að taka ákvarðanir til að jafna stöðu kynja og tryggja að fjölbreytileiki samfélagsins fái að njóta sín, sem og jafnréttis- og kynjafræðikennslu á öllum skólastigum.
Konur krefjast þess að fá að vinna vinnuna sína án áreitni, ofbeldis og mismununar, og að stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir og taki af festu á kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði. Og við krefjumst þess að hlustað sé á þolendur og tekið sé mark á sögum þeirra. Konur sem upplifa ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur allar konur samfélagsins úr öllum kimum samfélagsins. Konur sem tilheyra mismunandi minnihlutahópum upplifa mismunandi birtingarmyndir ofbeldis og áreitni sem við þurfum að taka tillit til.
Yfirlýsinguna í heild má finna neðar í fréttinni.
#MeToo kvennafrí
Síðustu mánuði hafa sögur af áreitni og ofbeldi á vinnustað undir myllumerkinu #MeToo sýnt fram á að baráttan fyrir bættum kjörum á vinnumarkaði er ekki aðeins barátta fyrir betri launum, heldur einnig barátta fyrir bættum vinnuaðstæðum og öryggi á vinnustað. Það þarf að þrýsta á stjórnvöld og atvinnurekendur um að efla aðgerðir til að koma í veg fyrir og bregðast við kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað. Tryggja verður að atvinnurekendur hafi vinnureglur og verkferla til að bregðast við ofbeldi og misrétti þegar það á sér stað.
Yfirlýsing samstöðufunda kvenna, 24. október 2018
Frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum sem deilt hefur verið undanfarið ár á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #MeToo undirstrika að kjaramisrétti er ekki eina misréttið sem konur þurfa að glíma við á vinnumarkaði. Við stöndum hér saman til að lýsa því yfir, hátt og snjallt, að kynferðisleg áreitni og ofbeldi er ólíðandi með öllu!
Við verðum að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Við verðum að skapa samfélag þar sem störf kynjanna eru metin að verðleikum, samfélag þar sem kjarajafnrétti ríkir.
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Konur vinna þó lengur en karlar ef lögð er saman vinnan innan heimilis sem utan. Konur eru að jafnaði að lágmarki fjórfalt lengur frá vinnumarkaði en karlar vegna barneigna og þriðjungur kvenna er í hlutastarfi vegna ábyrgðar á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Það hallar á konur í valda- og áhrifastöðum og hefðbundin kvennastörf eru vanmetin sem endurspeglast í lægri launum og lakari vinnuaðstæðum. Þetta vanmat á framlagi kvenna þýðir lægri ævitekjur og lífeyrisgreiðslur og vaxandi kulnun í starfi.
Þessu þarf að linna, kjarajafnrétti strax!
Nú ganga konur út kl. 14:55, á mínútunni sem við hættum að fá borguð laun fyrir vinnuna okkar. Þetta er í sjötta skipti síðan 1975 sem við göngum út til að mótmæla kynbundnu kjaramisrétti, en enn eigum við langt í að ná jafnrétti. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 29 ár eftir að konur fái sömu tekjur og karlar.
Við bíðum ekki lengur!
Það er nóg komið, þessi tími er liðinn, konur eiga að vera metnar að verðleikum, njóta jafnréttis og vera óhultar jafnt heima sem í vinnu!
Við skilum hér með skömminni þangað sem hún á heima til gerendanna, til atvinnurekenda, til stjórnvalda, til réttarkerfisins, til samfélagsins sem hefur látið ofbeldi og misrétti viðgangast um aldaraðir. Við lýsum yfir stuðningi við þær þúsundir kvenna sem hafa komið fram opinberlega og deilt sögum sínum af áreitni, ofbeldi og misrétti, á vinnustað og í samfélaginu öllu. Við lýsum einnig yfir stuðningi við þær konur sem ekki hafa stigið fram. Við erum hér fyrir ykkur, fyrir okkur öll!
Öxlum öll ábyrgð á að breyta menningunni. Í vinnunni, heima, í skólum, í vinahópnum, í íþróttum, í félagsstarfi, og alstaðar. Við berum öll ábyrgðina á því að halda umræðunni vakandi, að sýna virðingu og samkennd í samskiptum við náunga okkar, auka vitund og skilning á kynjakerfinu sem við búum við.
Jafnréttismál eru hagsmunir okkar allra, ekki bara kvenna. Breytum menningunni og hugarfarinu, saman! Stöndum saman og höfum hátt!
Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Kjarajafnrétti STRAX!
Myndir frá Akureyri (þær stækka ef þú ýtir á þær)
Myndir frá Dalvík (þær stækka ef þú ýtir á þær)