Breytingar á tollkvóta skilað sér í auknu framboði og minni verðhækkunum á landbúnaðarvörum

Niðurstöður verðkannananna á landbúnaðarvörum sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frá desember 2019 til september 2020, benda til þess að neytendur hafi notið góðs af breytingum sem gerðar voru á lögum um úthlutun tollkvóta í byrjun tímabilsins. Verðhækkanir á landbúnaðarvörum eru minni en verðhækkanir á annarri matvöru á tímabilinu og þá jókst framboð einnig mikið.
Verð á landbúnaðarvörum hækkaði mismikið eftir tegundum og uppruna en ákveðnar tegundir, einkum kjötvörur hækkuðu lítið í verði í samanburði við verðþróun á annarri matvöru á tímabilinu. Aðrir samverkandi ytri þættir hafa einnig haft áhrif á verðlag á þeim tíma sem verðkannanirnar fóru fram en veiking krónunnar og áhrif Covid á framleiðslu og eftirspurn hafa haft áhrif á verðlag á matvöru, bæði til hækkunar og lækkunar.

Framboð af innfluttum og innlendum landbúnaðarvörum jókst mikið frá desember 2019 - október 2020. Heildarframboð, þ.e. fjöldi innfluttra og innlendra svínakjötsafurða jókst um 96%, framboð af fuglakjöti um 90% og nautakjöti um 86% en framboð á unnum kjötvörum og ostum jókst minna. Verð á fuglakjöti hækkaði minnst, að meðaltali, 1,2%. Verð á innfluttu fuglakjöti lækkaði um 1,3% á meðan verð á innlendu hækkaði um 3,3%. Verð á nautakjöti hækkaði næst minnst, að meðaltali um 1,9%. Innlent nautakjöt hækkaði um 1,6% en það innflutta um 2,2%. Verð á ostum hækkaði mest, að meðaltali um 7,9%. Innfluttir ostar hækkuðu um 9% samanborið við 6,5% verðhækkun á innlendum ostum.

Verðkannanir verðlagseftirlits ASÍ voru framkvæmdar mánaðarlega í matvöruverslanakeðjum á tímabilinu desember 2019- október 2020. Eins og fyrr segir voru þær gerðar fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að fylgja eftir breytingum sem voru gerðar á lögum um úthlutun tollkvóta á landbúnaðarvörum í desember 2019. Markmiðið með breytingunum var að lækka kostnað fyrir innflytjendur sem myndi skila sér í lægra verði á landbúnaðarvörum til neytenda. Verðlagseftirlit ASÍ skilaði skýrslu um niðurstöður verðkannananna til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis en skýrsluna má nálgast á vef ráðuneytisins.

Sjá nánar hér