Breytingar á réttindakerfi Stapa

Kári Arnór Kárason
Kári Arnór Kárason

Á ársfundi Stapa í vor voru samþykktar umtalsverðar breytingar á samþykktum sjóðsins sem felast í upptöku á nýju réttindaávinnslukerfi. Tekur nýja kerfið gildi um næstu áramót og er því ætlað að tryggja betur samræmi milli eigna og skuldbindinga sjóðsins. Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa, fer hér yfir nokkrar gagnlegar spurningar.

Hver er munurinn á gamla kerfinu og því nýja?
Í eldri réttindakerfum var innborguðu iðgjaldi breytt í réttindi samkvæmt töflu sem sagði að fyrir hverjar 10.000 kr. sem borgaðar voru inn í formi iðgjalds, fékk sjóðfélaginn tiltekin lífeyrisréttindi. Taflan byggir á því að sjóðurinn nái 3,5% raunávöxtun frá innborgun iðgjaldsins fram til þess tíma þegar það er endurgreitt í formi eftirlauna.  Var það fyrirkomulag kallað aldurstengd réttindaávinnsla eða jöfn réttindaávinnsla og gat oft myndast mikill munur á milli eigna og skuldbindinga sem varð að bregðast við með aukningu eða skerðingu réttinda, sem voru misvinsælar aðgerðir. Nýtt kerfi byggir á því sem kallað er eignatengd réttindaávinnsla. Réttindi til eftirlauna ávinnast þá með greiðslu iðgjalda til sjóðsins og þeirri ávöxtun sem sjóðurinn nær við að ávaxta iðgjöldin þar til þau koma til endurgreiðslu í formi eftirlauna. Þar sem ávöxtun er breytileg frá ári til árs er ávinnsla réttindanna það einnig.  Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt, þannig að hluti þess fer til að tryggja eftirlaunaréttindi og hluti til áfallatrygginga. Með þessu fyrirkomulagi fylgjast eignir sjóðsins og verðmæti skuldbindinga hans að á hverjum tíma.

Hvers vegna var farið í þessar breytingar á réttindakerfinu?
Skerðingar eru aldrei vinsælar og sjóðfélagar eiga oft erfitt með að skilja hvers vegna þarf að grípa til þeirra, þar sem þeir telja sig „eiga“ ákveðin réttindi hjá sjóðnum og tengja þau ekki endilega við eignir sjóðsins. Því var vilji til að breyta kerfinu þannig að verðmæti eigna og lífeyrisloforða standist betur á. Hagur sjóðfélagans er fólginn í meiri vissu og stöðugleika ásamt því að virkni kerfisins er skýrari.

 

Hvað er iðgjaldasjóður?
Sá hluti iðgjalds til sjóðsins sem fer til að mynda eftirlaunaréttindi kallast iðgjaldasjóður. Iðgjaldasjóðurinn byggist upp yfir starfsævina með greiðslu iðgjalda og ávöxtun. Ávöxtun sveiflast og er mismunandi frá ári til árs. Iðgjaldasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign hans, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum. Iðgjaldasjóður erfist ekki við fráfall. Þegar sjóðfélagi hefur náð eftirlaunaaldri er iðgjaldasjóði breytt í eftirlaun samkvæmt töflu II í samþykktum sjóðsins. 

Hvað er eignavísitala?
Eignavísitala Stapa lífeyrissjóðs er sérstök vísitala, sem reiknuð er út mánaðarlega og mælir breytingar á gangvirði eigna í eignasafni Tryggingadeildar Stapa, venjulega kallað ávöxtun. Iðgjaldasjóður er tengdur þessari vísitölu, sem þýðir að réttindi sjóðfélaga Stapa breytast í takt við breytingar í ávöxtun sjóðsins auk inngreiddra iðgjalda.

Hvað eru áfallatryggingar?
Með áfallatryggingum er átt við örorku- maka- og barnalífeyri. Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt milli eftirlaunaréttinda og áfallatrygginga. Hlutfall iðgjaldsins sem fer í að tryggja eftirlaunin rennur í iðgjaldasjóðinn. Hversu stór hluti fer í áfallatryggingar er háð aldri sjóðfélaga, en yfir starfsævina má búast við að 25-30% af iðgjaldinu fari í þessar tryggingar.

Hvernig er skipting iðgjalds milli eftirlauna og áfallatrygginga ákveðin?
Skiptingin fer eftir töflu I í samþykktum sjóðsins og byggir hún á tryggingafræðilegum forsendum, þar sem metinn er kostnaður við annars vegar eftirlaun og hins vegar áfallalífeyri miðað við aldur sjóðfélaga. Með skiptingu iðgjaldsins er sýndur sá kostnaður sem er á bak við mismunandi tryggingar. Mesti kostnaðurinn við áfallatryggingar er örorkulífeyrir. Áfallatryggingar eru  dýrar þegar einstaklingurinn er ungur, enda getur þurft að greiða einstaklingi, sem verður öryrki ungur örorkulífeyri um mjög langan tíma. Kostnaðurinn við áfallatryggingar minnkar eftir því sem sjóðfélagi nálgast eftirlaunaaldurinn.

Hvernig breytist iðgjaldasjóðurinn í eftirlaun?
Þegar sjóðfélagi hefur náð tilteknum aldri getur hann hafið töku eftirlauna. Hefðbundinn eftirlaunaaldur er 67 ára, en hægt er að hefja tökuna 60 ára og fresta henni til allt að 75 ára aldurs, að vali sjóðfélagans. Eftirlaunin ráðast af stöðu iðgjaldasjóðs og aldri sjóðfélagans þegar hann ákveður að hefja töku eftirlauna. Þá er iðgjaldasjóði hans breytt í eftirlaun í samræmi við töflu II í samþykktum sjóðsins. Eftir að taka eftirlauna er hafin, eru þau greidd til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Er ekki fólgin meiri óvissa í nýja kerfinu fyrir sjóðfélagana?
Það er alltaf mikil óvissa um hvaða lífeyri er hægt að greiða þegar horft er langt fram í framtíðina. Það er í raun engin leið að segja  til um hvaða réttindi tuttugu og fimm ára einstaklingur mun fá fyrir innborgað iðgjald 42 árum síðar þegar hann fer á eftirlaun. Þegar réttindin eru ekki tryggð með neinu öðru en eignunum þá verða þau í raun aldrei meira virði en eignirnar á hverjum tíma, hvað sem stendur á yfirlitinu sem þú færð frá lífeyrissjóðnum. Það „loforð“ er alltaf skilyrt og háð því að eignir sjóðsins dugi til að standa undir því. Í gamla kerfinu gerðist það sjaldan, þar sem munurinn milli eigna og skuldbindinga var yfirleitt minni en 10%. En þegar þess þurfti gerðist það í stórum stökkum. Í nýja kerfinu verða meiri sveiflur á þeim tíma sem réttindin eru að myndast, en þær verða jafnt og þétt og ekki í eins stórum stökkum.  Við teljum að það sé betra að sjóðurinn eigi á hverjum tíma fyrir þeim lífeyrisréttindum, sem sjóðfélagar eiga hjá honum, frekar en að sjóðfélaginn fá upplýsingar um „réttindi“, sem e.t.v. þarf að skerða síðar af því að eignir standa ekki undir þessum réttindum. Óvissan um hver endanleg eftirlaun verða minnkar svo eftir því sem nær dregur lífeyrisaldrinum, þar sem árunum fækkar sem sjóðurinn er til ávöxtunar áður en hann kemur til útborgunar í formi lífeyris.