Ný grein eftir formann félagsins.
Hér á landi hefur á margan hátt ríkt neyðarástand í húsnæðismálum. Leigumarkaðurinn hefur stækkað mikið og samkvæmt nýjustu könnunum greiða um átta þúsund heimili meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Það gefur augaleið að þessi hópur lifir við mikið óöryggi og við því verður að bregðast með öllum tiltækum ráðum. Í ofanálag hafa stjórnvöld í langan tíma vanrækt hlutverk sitt á húsnæðismarkaðnum, þannig hefur stuðningur hins opinbera verið skorinn niður og alls ekki haldið í við þróun verðlags og launa. Eðli málsins samkvæmt hefur þetta bitnað illa á ungu fólki, sem er að hefja búskap og koma sér upp þaki yfir höfuðið.
Þriðjungur á leigumarkaði
Eining-Iðja hefur reglulega fengið Gallup til að kanna fjölda þeirra sem eru á leiðumarkaði á félagssvæði sínu og sýna niðurstöðurnar að hlutfallið hefur hækkað á undanförnum árum. Um þriðjungur félagsmanna er á leigumarkaði. Afleiðingin er meðal annars aukinn ójöfnuður, frekari stéttaskipting og stórlega aukið vinnuálag.
Ný húsaleigulög í farvatninu
Í síðustu viku voru kynntar breytingar á húsaleigulögum, þar sem meðal annars eru sett skilyrði fyrir hækkun húsaleigu, skráningu leigusamninga og að forgangur að áframhaldandi leigu verði tryggður. Verkalýðshreyfingin fagnar því að stjórnvöld uppfæri húsaleigulögin, enda slíkar breytingar verið eitt af stóru og brýnustu baráttumálunum hennar síðustu ára.
Meðal áhersluatriða sem boðaðar eru í nýjum lögum má nefna:
Sanngirnismál
Veraklýðshreyfingin mun auðvitað fylgjast vel með umræðunni um þessar breytingar og tala fyrir sínum áherslum, þar sem því verður við komið. Með því að styrkja stöðu leigjenda og gera leigumarkaðinn að raunhæfum kosti fyrir fólk til til langs tíma, verður til raunverulegur valkostur í húsnæðismálum.
Það hlýtur að vera sanngirnismál að breyta lögunum þannig að leigusali og leigandi standi jafnfætis í sínum viðskiptum.
Með því að koma á skráningarskyldu leigusamninga og leiguverðs í opinberan gagnagrunn verður auðveldara að meta hvort leigufjárhæðin sé eðlileg og sanngjörn. Með slíkum gagnagrunni verður leiguverðið líka gegnsætt, enda hægt að fletta upp á netinu meðalverði eftir svæðum, svo dæmi sé tekið. Einnig er lagt til að leigjendur njóti forgangsréttar á áframhaldandi leigu, komi til uppsagnar á leigusamningi og húsnæðið auglýst laust til leigu í kjölfarið.
Tími breytinga
Alþingi á síðasta orðið í þessum efnum. Boðaðar breytingar koma á margan hátt skikki á markaðinn og verða mikil og ánægjuleg tímamót fyrir leigjendur, staða þeirra mun styrkjast.
Við skulum rétt vona að ný húsaleigulög verði samþykkt á yfirstandandi þingi, enda um að ræða afskaplega brýnt réttlætismál.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.