Brautskráning í SÍMEY

Hluti brautskráningarhópsins sem lauk námi sínu í SÍMEY með formlegum hætti í gær. Mynd af simey.is
Hluti brautskráningarhópsins sem lauk námi sínu í SÍMEY með formlegum hætti í gær. Mynd af simey.is

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar útskrifaði í gær 63 nemendur af sjö námsleiðum, auk þess sem útskrifaðir voru nemendur úr almennri starfshæfni. Námsleiðirnar sjö, sem allar eru vottaðar námsleiðir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, eru: Félagsliðabrú, stuðningsfulltrúabrú, nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, sölu-, markaðs og rekstrarnám, námsleiðin Sterkari starfsmaður, myndlistarnámið Fræðsla í formi og lit og Íslensk menning og samfélag.

Brautskráningin fór fram í húsakynnum SÍMEY og voru þar einungis brautskráningarnemar og starfsfólk SÍMEY. Vegna fjöldatakmarkana var brautskráningin ekki opin gestum en henni var streymt á netið í fyrsta skipti.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, ræddi í brautskráningarávarpi sínu um það óvenjulega skólaár sem nú var að ljúka.

„Síðastliðið ár hefur verið mjög óvenjulegt og haft mjög neikvæðar afleiðingar eins og við þekkjum. Okkur var einhvern veginn gert á skömmum tíma að breyta persónulegu lífi okkar og starfsumhverfi á mjög stuttum tíma. Tæknilæsi og aðlögunarhæfni hafa verið stóru verkefnin. Á stuttum tíma þurfti að gera grundvallabreytingar á námsfyrirkomulagi og færa það í veflægan búning. Okkar var öllum skellt í djúpu laugina og við þurftum að endurskoða allt er lýtur að vinnufyrirkomulagi og nefndu tæknilæsi. Margt af þessu mun hjálpa okkur að nálgast verkefni í starfi og lífi með auðveldari hætti en ella hefði verið. Það teljast jákvæð áhrif af þessu öllu saman til lengri tíma,“ sagði Valgeir.

Við brautskráningarnemendur sagði hann m.a.:
„Þið tókuð þá ákvörðun að efla ykkur og víkka sjóndeildarhringinn með því að fara í nám. Að hluta til fenguð þið í kaupbæti afleiðingar heimsfaraldurs með tilheyrandi skipulagsbreytingum og tæknikröfum, ekki síst þau ykkar sem lengst hafið hér verið í námi. Það hefði verið hægt að sitja hjá eða hætta við, í þeirri orrahríð sem hefur gengið hér yfir í byljum, en það gerðuð þið ekki. Slíkt ber vott um þá þætti sem eru svo mikilvægir í dag, að vera tilbúin að endurskoða stöðu sína, vinna með öðrum og hafa þá seiglu að geta tekist á við breytingar. Í öllu þessu eruð þið með hátt skor, vera ykkar hér í dag er staðfesting þess. Einn stærsti þáttur náms er sjálfsskilningur og að átta sig á styrkleikum sínum, vinna með öðrum, víðsýni og samkennd. Lengi mætti áfram telja.
Það eru miklar breytingar í samfélaginu, við finnum öll fyrir því, ekki síst ef við lítum um öxl. Lengra aftur í tímann. Við afgreiðum okkur sjálf í búðum, línuleg sjónvarpsdagskrá er horfin, vélmenni eru orðin samstarfsfélaginn í sumum tilvika.
Eigum við að hlaupa sífellt hraðar eða hvað? Við eigum í það minnsta að vera vakandi fyrir líðan okkar, streitu og neikvæðar afleiðingar hraðra tæknibreytinga þarf að varast, skekkt sjálfsmynd og vanlíðan er að aukast. Að auka sjálfsþekkingu sína í gegnum t.d. nám er ein leið, að finna til sín og hversu mikið áunnist hefur í lífi og starfi og hvernig það kemur fram í námi. Að auka möguleika sína og efla tengslanetið. Fyrir allt þetta eruð þið lýsandi dæmi og það ber að óska ykkur til hamingju! Framhaldsfræðslan á að vera nákvæmlega vettvangur fyrir þetta, að veita fullorðnu fólki svigrúm til að finna sjálft sig í viðeigandi umhverfi þar sem það hefur ráðrúm til að tengja saman námsvettvang og sinn reynsluheim og þekkingu.“

Valgeir nefndi að til viðbótar við þá sem útskrifuðust formlega í gær hafi SÍMEY nú þegar útskrifað nokkra nemendahópa á þessari önn, t.d. eftir að hafa setið íslenskunámskeið, fjölmörg fyrirtækjaskólanámskeið, vefæg námskeið o.s.frv. Hann sagðist áætla að þátttakendafjöldi hjá SÍMEY á ári sé um fjögur þúsund manns, í námi, raunfærnimati og ráðgjöf hvers konar, og samkvæmt því væri SÍMEY fjölmennasta menntastofnun í Eyjafirði og þriðja stærsta símenntunarmiðstöð landsins.

Valgeir þakkaði í lok ávarps síns starfsmönnum SÍMEY fyrir vel unnin störf á krefjandi tímum – föstum starfsmönnum, kennurum, leiðbeinendum og öðrum þeim sem leggja hönd á plóg fyrir SÍMEY en í það heila eru það um 150 manns.