Botnaðu nú! Vinningshafar úr jólablaði Einingar-Iðju

Dómnefnd að störfum
Dómnefnd að störfum

Dómnefnd sem fór yfir vísur sem bárust í leiknum Botnaðu nú! sem var í jólablaði félagsins lauk störfum í vikunni. Í dómnefnd voru þau Anna Dóra Gunnarsdóttir, Davíð Hjálmar Haraldsson og Stefán Vilhjálmsson og þakkar félagið þeim vel unnin störf. Í blaðinu birtust þrír fyrripartar og í verðlaun voru þrjár helgarleigur á Illugastöðum að vetri til í orlofshúsi í eigu félagsins, ein fyrir hvern fyrripart. Að auki voru veitt ein heildarverðlaun fyrir botna við alla þrjá fyrirpartana, vikudvöl í orlofshúsi Einingar-Iðju að eigin vali sumarið 2015.

Félaginu barst töluverður fjöldi botna frá hagyrtum lesendum, sem segir okkur að kveðskapur hljóti að vera hin skemmtilegasta iðja. Úr vöndu var að ráða fyrir dómnefndina, sem skemmti sér hið besta yfir frábærum afrakstri hagyrðinganna. Hún komst loks að niðurstöðu og afhjúpar hér með nöfn sigurvegaranna:

Besta botn við fyrripart nr. 1 átti Hallgrímur Gíslason
Sjáðu þennan sterka staur,
stend ég upp við hann á kvöldin
Kannski finn þar kátan gaur
sem kíminn borgar syndagjöldin.

Við fyrripart nr. 2 var Ólöf Ingimundardóttir með bestu útkomuna og hafði þetta að segja;
Ber fyrir augu bjartari hlið
á bágri stöðu minni;
Áðan snót mér lagði lið,
ljúf voru þessi kynni.

Botninn rak svo Óttar Björnsson bestan við fyrripart nr. 3;
Fljótt skipast veður í lofti ljúfu,
lækir og ár verða undan að hopa.
Náttúran deyr undir hrauni hrjúfu,
hvergi fá skepnurnar strá eða sopa.

Sá sem í heildina kvað best var Hallgrímur Gíslason.

Eining-Iðja óskar vinningshöfunum til hamingju. Haft verður samband við þá við fyrsta hentugleika.


Af öllum þeim skemmtilegu botnum sem bárust, látum við nokkra í viðbót fljóta með:
Sjáðu þennan sterka staur,
stend ég upp við hann á kvöldin.
Oft um jólin giljagaur
glaður hérna tekur völdin.

Ber fyrir augu bjartari hlið
á bágri stöðu minni,
ef endurgreiðsluáformið
efnir stjórnarsinni.

Fljótt skipast veður í lofti ljúfu,
lækir og ár verða undan að hopa.
Hímir nú krummi á hundaþúfu,
á heiðunum ótal karrar ropa.

Ber fyrir augu bjartari hlið
á bágri stöðu minni.
Bankinn samt ei gefur grið
gróðahugsjóninni.