Botnaðu nú! Fleiri vinningshafar úr jólablaði Einingar-Iðju

Dómnefnd sem fór yfir vísur sem bárust í leiknum Botnaðu nú! sem var í jólablaði félagsins lauk störfum í vikunni. Í dómnefnd voru þau Anna Dóra Gunnarsdóttir, Davíð Hjálmar Haraldsson og Stefán Vilhjálmsson og þakkar félagið þeim vel unnin störf. Í blaðinu birtust fjórir fyrripartar og í verðlaun voru fjórar helgarleigur á Illugastöðum að vetri til í orlofshúsi í eigu félagsins, ein fyrir hvern fyrripart. Að auki voru veitt ein heildarverðlaun fyrir botna við alla fjóra fyrirpartana, vikudvöl í orlofshúsi Einingar-Iðju að eigin vali sumarið 2014.

Félaginu barst töluverður fjöldi botna frá hagyrtum lesendum, sem segir okkur að kveðskapur hljóti að vera hin skemmtilegasta iðja. Úr vöndu var að ráða fyrir dómnefndina, sem skemmti sér hið besta yfir frábærum afrakstri hagyrðinganna. Hún komst loks að niðurstöðu og afhjúpar hér með nöfn sigurvegaranna:

Davíð Herbertsson sá rómatíkina í fyrsta fyrriparti og bætti við:
Drapinn vex um dæld og hól,
daggir honum svala.
Mildum geislum morgunsól
miðlar inn til dala.

Kristín Anna Guðmundsdóttir veit nákvæmlega hvaða gagn er af góðum kuldaskóm og bætti við fyrripart nr. 2:
Kuldaskóna kalla má
kæra vini fótum á,
bægja kuldabola frá
bæði hæl og stórutá.

Óttar Björnsson þekkir lífið og veit hvað eykur okkur lífshamingjuna og bætti við fyrripart nr. 3:
Eigðu nú, sem aldrei fyr
yndi í þínu hjarta.
Eykur lífsins óskabyr
ástin hlýja, bjarta.

Bergur Ingimundarson er með þetta á hreinu og bætti við fyrripart nr. 4:
Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Lifnar gróður, lengist dagur,
loftið fer að blána.


Bergur var einnig sá sem átti bestu botnana í heild:
Drapinn vex um dæld og hól,
daggir honum svala.
Mildur blær og sumarsól
svifta burtu kala.

Kuldaskóna kalla má
kæra vini fótum á,
og sokka – ullar, sauðum frá
svo að ekki frjósi tá.

Eigðu nú, sem aldrei fyr
yndi í þínu hjarta.
Í ástarsælu og unaðsbyr
ekki þarf að kvarta.

Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Lifnar gróður, lengist dagur,
loftið fer að blána.

Eining-Iðja óskar vinningshöfunum til hamingju. Haft verður samband við þá við fyrsta hentugleika.


Til gamans birtum við nokkra botna í viðbót.
Þessum þóttu öfugmæli í því að eiga kuldaskó að vinum – og traðka svo á þeim !! :
Kuldaskóna kalla má
kæra vini fótum á.
Kaldhæðni það kalla má
kærum vinum traðka á.

Þessi vildi klæða sig ögn meira en bara í kuldaskó:
Kuldaskóna kalla má
kæra vini fótum á.
Húfu hlýja höfuð á
held ég væri gott að fá.

Þessi veit hvað tekur við af sumrinu:
Drapinn vex um dæld og hól,
daggir honum svala.
Kraftinn fær úr kærri sól,
kemur senn að dvala.

Þessi minnist örlaga drapans í fyrsta fyrriparti og hlakkar til vorsins:
Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Kemur lóa, lengist dagur
og líf í drapann „dána“.

Þessi er lífsreynd/ur:
Kuldaskóna kalla má
kæra vini fótum á.
Króknar ekki kerling þá
körlum tveim sem liggur hjá.

Þessum eru sveitaverkin líka hugleikin:
Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Verði margur
er drengir hirða ljána.

Þessi segir:
Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Oftar kemur óskadagur,
enda fer að hlána.

Þessi botnaði greinilega í lok vinnuviku:
Vorið kemur, vænkast hagur,
veðrið er að skána.
Frábært, nú er föstudagur
ég fæ mér ögn í tána.