Borgarferðir í beinu flugi frá Akureyri í samvinnu við Ferðaskrifstofu Akureyrar

Ákveðið var að fara í samstarf við Ferðaskrifstofu Akureyrar og niðurgreiða 50 sæti fyrir félagsmenn í tvær borgarferðir í beinu flugi frá Akureyri næsta haust, 25 sæti í hvora ferð. Annars vegar er um að ræða ferð til Dublin dagana 22. til 26 október og hins vegar ferð til Berlín dagana 5. til 8. nóvember.

Ferðaskrifstofa Akureyrar sér alfarið um að skrá í ferðirnar. Félagar þurfa að muna, þegar ferð er bókuð, að segjast vera félagsmenn Einingar-Iðju. Um niðurgreiðsluna gildir fyrstir panta, fyrstir fá.

Dublin - 22. til 26. október 2015
Dublin á Írlandi er einstök borg sem hefur unnið hug og hjörtu margra Íslendinga í gegnum árin, enda er varla annað hægt en að hrífast af umhverfinu, menningunni og lífsgleði innfæddra.
Frá Íslandi er aðeins tveggja tíma flug til Dublinar, sem margir fullyrða að sé í hópi skemmtilegustu borga Evrópu. Í Dublin eru vel á annað þúsund barir og krár, þar sem þjóðdrykkirnir Guinness (dökkur bjór), Jameson (viský) og Bailey's (líkkjör) njóta iðulega mestu vinsældanna. Það verður ekki tekið af Írunum að þeir kunna sannarlega að skemmta sér og hin svokallaða „pöbba-stemning“ sem gjarnan myndast er sannarlega ógleymanleg.
Segja má að gönguferð í Temple Bar skemmtanahverfinu sé hreinlega upplifun út af fyrir sig, svo mikil er stemningin þar á hverju kvöldi. Mikið úrval góðra veitingastaða er að finna í Dublin og geta gestir þá valið á milli amerískra, skandinavískra, austurlenska nú eða að sjálfsögðu sér-írskra veitingastaða.

Camden Court er gott fjögurra stjörnu hótel sem er staðsett nálægt Stephen´s Green garðinum og í göngufæri við miðbæinn. Á hótelinu er heilsurækt og sundlaug, einnig veitingastaður, bar og krá þar sem hægt er að fá létta rétti. Miðbærinn er í 10 til 15 mín. göngufjarlægð. Við hliðina á hótelinu er frábær írskur bar The bleeding horse, en þar er kjörið að setjast inn eftir bæjarrölt og fá sér einn Guinness.
Herbergin eru stór og vel búin með sjónvarpi, síma, internettengingu, hárþurrku, buxnapressu og bakka með hraðsuðukönnu, te og kaffi. Sameiginleg aðstaða er fín og góðar seturstofur við gestamóttökuna. Hótel sem hentar mjög vel fyrir hópa.
Verð til félagsmanns í tvíbýli kr. 101.500. Aukagjald fyrir einbýli kr. 22.400.

Brooks Boutique hotel er einstaklega fallegt fjögurra stjörnu hótel mjög vel staðsett í miðborg Dyflinnar. Hótelið lætur ekki mikið yfir sér þegar komið er að því, en þegar inn er komin er allt sérlega smekklegt. Örstutt er að göngu- og verslunargötunni Grafton Street að Trintity Collegue og í Temple Bar hverfið. Veitingarstaður hótelsins Francesca's Restaurant er einn af betri veitingastöðum borgarinnar og barinn Jasmine er nútímalegur og smart. Á hótelinu er einnig tækjasalur og sauna. Herbergi eru hlýleg og búin helstu þægindum eins og síma, gervihnattasjónvarpi með flatskjá, kvikmyndarásum, nettengingu, smábar og hárþurrku.
Verð til félagsmanns í tvíbýli kr. 121.900. Aukagjald fyrir einbýli kr. 39.000.

Innifalið í verði:
Flug til og frá Dublin með Boeing 757-200 flugvélum Icelandair, gisting með morgunverði í fjórar nætur og íslensk fararstjórn.

Áætlaðir flugtímar
22. október AEY - DUB áætluð brottför kl. 7:15 – lent í Dublin kl. 10:30
26. október DUB - AEY áætluð brottför kl. 19:40 – lent á Akureyri kl. 22:10

Ekki innifalið:
Akstur til og frá flugvelli er ekki innifalinn og kostar 2.900 krónur á mann hvora leið. Bóka þarf akstur um leið og ferðina. Getum haft aksturinn innifalinn í verði til hópsins.

Berlín 5. – 8. nóvember 2015
Berlín er ein áhrifamesta borg Evrópu. Berlín er fjölmennasta borg Evrópusambandsins með um 3,5 milljónir íbúa. Borgin býr yfir mikilli sögu og menningu. Í Berlín ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir söfn, veitingastaði, verslanir eða skemmtanalíf.

Borgin skiptist upp í mörg hverfi og ekki er hægt að segja að Berlín hafi sérstakan miðbæ, heldur er hvert hverfi með sinn eigin miðbæ. Þessi hverfi eru ma. Charlotteburg, Kreuzberg, Mitte og Tiergaten. Staði sem áhugavert er skoða er m.a. Brandenburgar- hliðið, minjar frá Berlínarmúrnum, Sjónvarpsturninn, Reichstag og margt fleira.

Leonardo Royal Alexanderplatz er fjögurra stjörnu hótel staðsett í Mitte-hverfinu í Berlín og í einungis nokkurra mínútna fjarlægð frá Alexanderplatz. Á hótelinu er heilsurækt, gufa sem og veitingastaður, bar/setustofa. Herbergin eru útbúin nútímaþægingum á borð við loftkælingu, Wi-Fi tengingu, sjónvarpi og te/kaffiaðbúnaði.
Verð til félagsmanns í tvíbýli kr. 108.500. Aukagjald fyrir einbýli kr. 17.000.

Hótel Palace er fimm stjörnu nýuppgert hótel staðsett gegnt dýragarðinum í Berlín og í göngufjarlægð frá Kurfurstendamm verslunargötunni. Veitingastaður hótelsins hefur hlotið Michelin stjörnu en þar er einnig bar og setustofa. Á hótelinu er aðgangur að sundlaug með heitum potti og líkamsræktaraðstöðu.
Á herbergjum er mínibar og öryggishólf ásamt Wi-Fi tengingu og sjónvarpi en öll herbergi á hótelinu eru hljóðeinangruð.
Verð til félagsmanns í tvíbýli kr. 123.500. Aukagjald fyrir einbýli kr. 32.160.

Innifalið í verði:
Flug til og frá Berlín með WOW-air , gisting með morgunverði í þrjár nætur, ferðir til og frá flugvelli í Berlín og íslensk fararstjórn.

Áætlaðir flugtímar
5. nóvember AEY-BER áætluð brottför kl. 6:10 – lent í Berlin kl. 10:40
8. nóvember BER-AEY áætluð brottför kl. 11:40 – lent á Akureyri kl. 14:25

Allar nánari upplýsingar um ferðirnar má fá hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar og á www.aktravel.is