Bónus var oftast með lægsta verðið og Samkaup-Úrval oftast með hæsta verðið í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði á bökunarvörum í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum víða um land, þriðjudaginn 25. nóvember sl. Kannað var verð á 113 algengum vörum til baksturs og konfektgerðar.
Samkaup-Úrval var oftast með hæsta verðið eða í 42 tilvikum af 113 og Iceland í 31 tilviki. Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 56 tilvikum af 113, Krónan í 22 tilvikum og Víðir í 16. Í um helmingi tilfella var um eða undir 2 kr. verðmunur á Bónus og Krónunni. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru, voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum eða 109 af 113 en næstflestar voru til hjá Víði eða 98, fæstar vörutegundirnar sem skoðaðar voru að þessu sinni voru fáanlegar hjá Bónus eða aðeins 67 og 69 hjá Nóatúni.
Mikill verðmunur reyndist vera á þeim bökunarvörum sem skoðaðar voru. Algengast var að sjá 25-50% verðmun á milli verslana. Mestur verðmunur að þessu sinni var á 200 gr. af suðusúkkulaði frá Lindu sem var ódýrast á 198 kr. hjá Iceland en dýrast á 328 kr. hjá Samkaupum Úrval sem er 130 kr. verðmunur eða 66%. Minnstur verðmunur var á 500 gr. smjöri sem var ódýrast á 344 kr. hjá Hagkaupum en dýrast á 351 kr. hjá Nettó sem er 2% verðmunur.
Af einstaka vörum í könnuninni sem fáanlegar voru í öllum verslunum má nefna sem dæmi 10 stk. Brún egg sem voru ódýrust á 593 kr. hjá Bónus, en dýrust á 798 kr. hjá Samkaupum Úrval sem er 35% verðmunur. Púðursykur frá Dansukker 500 gr. var dýrastur á 398 kr. hjá Iceland en ódýrastur á 268 kr. hjá Víði sem er 49% verðmunur. 2 kg. af Kornax hveiti var dýrast á 317 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 247 kr. hjá Víði sem er 28% verðmunur. 454 gr. af Golden Lyle sýrópi í dós var dýrast á 409 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 347 kr. hjá Bónus sem er 18% verðmunur. 100 gr. af 56% súkkulaði frá Nóa Síríus var ódýrast á 215 kr. hjá Bónus en dýrast á 268 kr. hjá Iceland sem er 25% verðmunur.
Sjá nánari upplýsingar í töflu.
Kannað var verð á 113 vörum til baksturs t.d. mjólkurvörum, feitmeti, súkkulaði, ásamt ýmsum pakkavörum.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Víði, Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Hagkaupum og Nóatúni.