Björn endurkjörinn formaður SGS

Hjördís og Björn
Hjördís og Björn

Fyrr í dag lauk 4. þingi Starfsgreinasambands Íslands sem fram fór í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. Rétt fyrir hádegi voru samþykktar fjórar ályktanir; um kjaramál, atvinnumál, húsnæðismál og ríkisfjármál. Í lok þings voru Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, endurkjörinn formaður sambandsins og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður ALFs starfsgreinafélags, endurkjörinn varaformaður SGS með lófaklappi.

Í ályktun um kjaramál segir að vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum sé ekki ráðlegt að semja til langs tíma. Í komandi kjarasamningum verði ríkisstjórnin krafin um efndir á fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttunni um bættan hag heimilanna. Þá fordæmir Starfsgreinasambandið skattabreytingar sem færa þeim tekjuhæstu skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt. Svigrúmi sem sé til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafi milli handanna. Kaupmætti verði náð með sérstakri áherslu á hækkun lægstu launa og hækkun persónuafsláttar.

Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum og að barist verði af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum. Leiðrétting á launum verkafólks muni skila sér í aukinni einkaneyslu, auknum hagvexti og auknum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga.

Ályktanir þingsins má finna hér