Fyrr í dag var skrifað undir fyrstu þrjá leigusamningana vegna íbúða sem Bjarg leigufélag er að láta byggja fyrir sig við Gudmannshaga á Akureyri. Upphafsdagur leigu er 1. nóvember nk. en þá verða fjórar fyrstu íbúðirnar tilbúnar til afhendingar. Alls eru 31 íbúð í húsinu en þann 1. febrúar á næsta ári eiga allar íbúðirnar að vera tilbúnar til afhendingar.
Selma Unnsteinsdóttir, verkefnastjóri á leigusviði Bjargs, sagði að þau væru mjög ánægð með samstarfið við verktakann. „Það hefur gengið vel. Upphaflega stóð til að afhenda íbúðirnar aðeins fyrr en það komu ófyrirséðar tafir í verkið m.a. vegna veðurs síðasta vetur og Covid.“
Aðspurð um framhaldið á Akureyri sagði Selma að Bjarg væri með samkomulag við Akureyrarbæ um að byggja allt að 70 íbúðir í bænum. „Ekki hefur verið tekin ákvörðun með næstu skref, það er verið að meta þörf og þess háttar. Þetta er því bara allt í skoðun og þá mögulega á öðrum stað í bænum.“
Stór stund í dag
„Þetta er stór stund en ódýrar leiguíbúðir hafa verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar til marga ára,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju. „Með stofnun Bjargs, sem ASÍ og BSRB stóðu að, var brotið blað í að þetta yrði að veruleika. Það er sérstaklega ánægjulegt að nú sé verið að skrifað undir vegna fyrstu íbúðanna á Akureyri. Vonandi er þetta bara byrjun á mikilli uppbyggingu Bjargs hér í Eyjafirði sem mun nýtast því fólki sem ekki hefur möguleika á að eignast íbúð eða verið á dýrum leigumarkaði.“