Í síðasta Vikudegi má m.a. finna grein eftir Björn Snæbjörnsson formann félagsins þar sem hann fjallar um Bjarg íbúðafélag. Greinina má lesa hér fyrir neðan.
Verkalýðshreyfingin hefur haft frumkvæði að mótun og endurreisn félalgslegs leiguíbúðakerfis og beitt sér af krafti fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust kerfi. Við gerð síðustu kjarasamninga náðist mikilvægur áfangi í þessum efnum.
ASÍ og BSRB stofnuðu Bjarg íbúðafélag í lok árs 2016. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði til langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd „Almene boliger“.
Markmið félagsins er að tryggja:
- Öryggi
- Langtímalausn
- Hagkvæma leigu
- Vandaðar og vel hannaðar íbúðir
- Spennandi kost fyrir fólk á leigumarkaði
Miklar vonir eru bundnar við stofnun og rekstur íbúðafélagsins, jafnframt verði barna- og húsnæðisbótakerfið stóreflt.
Fyrirhugað að byggja á Akureyri
Bjarg íbúðafélag hefur þegar samið við Reykjavíkurborg og Hafnarfjörð um byggingu leiguíbúða og standa yfir viðræður við önnur sveitarfélög um uppbyggingu.
Gleðilegt er að segja frá því að viðræður hafa einnig staðið yfir við Akureyrarkaupstað um uppbyggingu leiguíbúða, viljayfirlýsing um verkefnið hefur verið lögð fram og kynnt á fundi bæjarráðs. Eining-Iðja styður heilshugar starfsemi Bjargs íbúðafélags og bindur vonir við að fyrstu samningar um uppbyggingu á Akureyri verði undirritaðir fljótlega.
Búsetuúrræði
Kaup á fasteign er í flestum tilvikum ein mesta fjárfesting einstaklinga, og oftar en ekki er stofnað til mikilla skuldbindinga til að fjármagna kaupin.
Húsnæðisskortur er víðast hvar á landinu og hefur komið sérlega illa niður á vinnandi fólki. Húsnæðiskostnaðurinn hefur bitnað harkalega á lífsgæðum og möguleikum fólks til sjálfstæðrar búsetu. Þess vegna hefur verkslýðshreyfingin lagt áherslu á að byggðar verði íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir fólk með lágar- og meðaltekjur. Hið opinbera verður að styðja búsetuúrræði fyrir þá sem vilja eignast húsnæði og ekki síður fyrir leigjendur.
Ný ríkisstjórn
Mörg úrlausnarmál bíða nýrrar ríkisstjórnar landsins. Í aðdraganda alþingiskosninganna kom glögglega í ljós að allir flokkar leggja áherslu á úrbætur í húsnæðismálum. Ekki verður öðru trúað en að ný ríkisstjórn taki þennan málaflokk föstum tökum.
Færa má sterk rök fyrir því að stjórnvöld beri ábyrgð á því ástandi sem ríkt hefur í húsnæðismálum á undanförnum árum. Ríkisstjórninni ber því skylda til að finna varanlegar lausnir og veita fjármunum til málaflokksins.
-Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands