Fyrr í dag var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Akureyrarbæjar og Bjargs íbúðafélags sem felur í sér að bærinn veiti 12% stofnframlag til byggingar 75 nýrra íbúða á vegum félagsins á Akureyri á næstu þremur árum. Þetta er gert í ljósi þeirra brýnu verkefna sem blasa við í húsnæðismálum og hefur Akureyrarbær nú þegar gefið vilyrði um úthlutun á lóð að Guðmannshaga 2 í Hagahverfi fyrir a.m.k. 18 íbúðir og fram til ársins 2020 verður úthlutað lóðum fyrir samtals 75 leiguíbúðir.
Á heimasíðu Akureyrarbæjar segir m.a. að við uppbyggingu skal horfa til atriða eins og félagslegrar blöndunar, yfirbragðs, íbúalýðræðis og hönnunar og skal það útfært nánar í samvinnu aðila. Akureyrarkaupstaður gerir það að skilyrði fyrir veitingu stofnframlags til verkefnisins að fjölskyldusvið Akureyrarbæjar hafi að jafnaði ráðstöfunarrétt að 20% íbúða, samkvæmt sérstöku samkomulagi sem aðilar gera um hvert verkefni.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir að þetta framtak íbúðafélagsins Bjargs á Akureyri sé góð viðbót við húsnæðismarkaðinn í bænum og að Akureyrarbær komi beint að þessu góða máli í því skyni að bæta aðgengi tekjulægri hópa að öruggu leiguhúsnæði.
„Framundan er krefjandi verkefni sem Bjarg mun leysa af metnaði og í samvinnu við heimamenn," segir Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs og fagnar samstarfinu við Akureyrarbæ.
Samkomulagið undirrituðu Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Elín Björg Jónsdóttir stjórnarmaður í Bjargi og formaður BSRB, og Gylfi Arnbjörnsson stjórnarformaður Bjargs og forseti ASÍ.