Á vef SGS segir að barátta launafólks er erfið í mörgum löndum og víða þar sem vinnulöggjöf og verkalýðshreyfing er veik hefur öryggisleysi á vinnumarkaði aukist. Eitt helst áhyggjuefni í Evrópu og víða er staða ungs fólks sem fær einungis tímabundnar ráðningar, er íhlaupafólk og jafnvel með svokallaða núlltímasamninga, þar sem starfshlutfallið er sveigjanlegt eftir því hvaða vinna býðst þennan og þennan daginn. Þetta hefur leitt til þess að ungt fólk getur ekki skipulagt sig fram í tímann, veit ekki einu sinni hvað það fær útborgað næstu mánaðarmót og vonlaust að gera langtíma leigusamninga, hvað þá að festa kaup á húsnæði. Óöruggar ráðningar hafa því djúpstæð og alvarleg vandamál í för með sér fyrir eintaklinga og heilu samfélögin.
Nýja Sjáland hefur ákveðið að segja stopp við núlltímaráðningum en þar í landi er metið að hundruðir þúsunda hafi verið ofurseld slíku ráðningarformi. Þingið hefur sem sagt sett lög sem bannar þessa samninga, það verður að skilgreina starfshlutfall í ráðningasamningum og verkafólk getur neitað að vinna yfirvinnu. Verkalýðshreyfingin á Nýja Sjálandi hrósar sigri og ungt fólk telur þetta muni breyta lífi þess til hins betra. Vonandi er fleiri góðra frétta að vænta utan úr heimi. Verkalýðsbaráttan er alþjóðleg barátta og héðan sendum við góðar kveðjur til félaga okkar um allan heim sem berjast gegn óviðunandi starfsskilyrðum.