Baklandið verður að vera öflugt

„Ég hvet alla til að kjósa, það er um að gera að sýna samstöðu í kjarabaráttunni. Sjálf er ég ekki búin að kjósa, en geri það væntanlega í dag eða á morgun. Ég hef þegar gert upp hug minn og þarf þess vegna ekki langan umhugsunartíma, auk þess sem rafræna kosningin er einföld,“ segir Aðalbjörg Gunnarsdóttir sem starfar á KEA-hótel á Akureyri.

„Auðvitað vill enginn fara í verkfall, en krafa Starfsgreinasambandsins er skýr og sanngjörn. Það dugar ekki að hækka launin um örfá prósent, eins og Samtök atvinnulífsins hafa boðað. Þess vegna er svo mikilvægt að allir sýni samstöðu og taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Það getur ekki verið sanngjarnt að launþegar þurfi að stóla á yfirvinnu til þess að geta lifað eðlilegu lífi, krafan um hækkun dagvinnulauna er þess vegna eðlileg í mínum huga. Vonandi verður kosningaþátttakan góð, baklandið verður að vera öflugt. Ekki veitir af,“ segir Aðalbjörg Gunnarsdóttir.