Á heimasíu ASÍ segir að heildarsamtök aðila á vinnumarkaði hafa frá árinu 2013 átt formlegt samstarf með það að markmiði að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga, í því skyni að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og auknum kaupmætti. Ríkissáttasemjara var falið að stýra fundum hópsins og skipuleggja starf hans. Samstarfið hefur gengið undir heitinu salek (Samstarf aðila vinnumarkaðarins um launaupplýsingar og efnahagslegar forsendur kjarasamninga) og hefur hópurinn tekið saman tölfræðilegar upplýsingar um launaþróun og efnahagsumhverfi kjarasamninga frá árinu 2014, ásamt því að vinna að því markmiði að móta og innleiða nýtt samingalíkan á vinnumarkaði í anda þess sem þekkist á norðurlöndum.
Hópurinn fékk Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, til ráðgjafar en hann hefur stýrt þremur vinnuhópum um mótun og endurskoðun norska samningalíkansins. Holden var falið að gera tillögur að samningalíkani fyrir Ísland með það að markmiði að tryggja sjálfbæra launaþróun sem stuðlaði að efnahagslegum stöðugleika og auknum kaupmætti launafólks.
Holden hefur nú skilað bráðabirgðarútgáfu af skýrslu til salek hópsins, þar sem lagðar eru fram ýmsar hugmyndir um það hvernig megi bæta vinnubrögð við kjarasamningagerðina hér á landi. Markmið skýrslunnar er að hvetja til umræðna með því að;
Kynna lykilatriði sem gott samningalíkan þarf að uppfylla
Lýsa reynslu og lausnum frá öðrum norðurlöndum
Benda á þau úrlausnarefni sem Íslendingar standa frammi fyrir í tengslum við upptöku nýs samningalíkans.
Til að tryggja sjálfbæra launaþróun hér á landi, telur Holden gagnlegt að taka upp nýtt samningalíkan hér á landi og byggja tillögur hans hans á fyrirkomulagi samningamála á norðurlöndum, einkum í Noregi. Þá voru einnig hafðar til hliðsjónar við mótun tillagnanna, ábendingar sem um það bil 80 manns úr baklandi salek hópsins komu á framfæri á fundi með Steinari í maí.
Tillögurnar eru nokkurs konar hlaðborð hugmynda um það hvernig megi betrumbæta kjarasamningagerðina hér á landi og framundan er fyrirhuguð ítarleg kynning á þeim á meðal aðila vinnumarkaðarins. Á næstu vikum og mánuðum verða tillögurnar teknar til umræðu og frekari úrvinnslu innan samtaka á vinnumarkaði, þar sem afstaða verður tekin til tillagna Holdens.